149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:47]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þegar við horfum á stöðuna er það vissulega alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að margt hefur breyst. Við erum með fordæmalítinn afgang í uppsveiflu en hann er reyndar að hverfa mjög hratt hjá okkur, var 6% fyrir fáeinum misserum síðar en er sennilega komin niður fyrir 1% í dag. En það er ekki hjá því komist að horfast í augu við það þegar við horfum t.d. á mat IMD á samkeppnishæfni okkar að í hinum frábæra fordæmalausa efnahagsvexti erum við í tæplega 40. sæti í samkeppnishæfni hvað efnahagskerfi okkar varðar. Þar hljótum við að horfa til þess að við erum með gríðarlega hátt vaxtastig, alveg einstaklega óstöðugan gjaldmiðil, einstaklega óstöðugt hagkerfi. Við erum útgildi þegar kemur að sveiflum í hagvexti, sveiflum í verðbólgu, án þess að við vöxum endilega hraðar til lengdar en nágrannalönd okkar. Það er auðvitað sá óstöðugleiki sem veldur því á endanum að við sjáum til að mynda að tæknigreinarnar okkar hafa ekki vaxið neitt sérstaklega hratt og atvinnuhorfur háskólamenntaðra einstaklinga hér á landi eru ekki sérstaklega merkilegar í alþjóðlegum samanburði. Þetta hlýtur (Forseti hringir.) að vera hv. þingmanni áhyggjuefni. Það er svo sannarlega (Forseti hringir.) þeim sem hér stendur töluvert áhyggjuefni.