149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

162. mál
[20:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við fulltrúar í efnahags- og viðskiptanefnd tókum ekki umræðuna um vörugjöldin og losun koltvísýrings í samhengi við umhverfi eða stefnu hæstv. ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum, en við hefðum kannski átt að gefa okkur betri tíma í það. Hér á landi hafa stjórnvöld farið þá leið að lækka gjöld á rafbílum, metanbílum og tvinnbílum en hafa ekki, enn sem komið er alla vega, viljað hækka gjöld á eyðslufreka bíla. Það hafa norsk stjórnvöld hins vegar gert og náð ágætisárangri.

Það blasir við að við þurfum að draga úr losun frá vegasamgöngum um 50% til ársins 2030 og það verður ekki gert nema rafbílar og metanbílar verði á samkeppnishæfu verði fyrir neytendur og hefðbundnir bílar af sömu stærð verða a.m.k. jafn dýrir og vistvænir bílar.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki nauðsynlegt að setja einhverja slíka hvata inn og hvort hugsanlega megi nýta vörugjöld í þeim tilgangi að draga úr hvötum til að flytja hér inn mengandi bíla. Hefðum við kannski átt að skoða frumvarpið sem við erum með núna betur í því samhengi, eða er hægt að koma með mál á síðari stigum sem væri eitthvað í líkingu við þetta?