149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Þessi tillaga gengur út á að auka fjárheimildir til heimahjúkrunar og heimaþjónustu aldraðra. Fjölgað hefur mjög á biðlistum eftir hjúkrunarrými fyrir aldraða og hefur embætti landlæknis lýst yfir þungum áhyggjum af stöðunni. Biðtími hefur auk þess lengst. Í september biðu að meðaltali 411 manns eftir hjúkrunarrými. Fjölgun á biðlistum á landsvísu nemur 20%. Þeim sem bíða heima finna oft fyrir miklu óöryggi og vanlíðan. Þeir sem bíða á sjúkrahúsi finnst þeir jafnvel vera fyrir og vera hornreka. Það hefur veruleg áhrif á lífsgæði fólks.

Miðflokkurinn leggur ríka áherslu á að mæta þeim vanda. Skilvirkasta og fljótlegasta leiðin til þess að bæta stöðuna er að mati landlæknis að efla heimaþjónustu, heimahjúkrun og heilsueflingu aldraðra. Miðflokkurinn leggur hér fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um sérstaka fjárveitingu í þennan málaflokk upp á 200 millj. kr.