149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:15]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hér er um að ræða breytingartillögu um aukið fjármagn til hjúkrunarheimila. Breytingartillaga meiri hlutans samsvarar einungis einum fimmta af því sem hjúkrunarheimilin óskuðu eftir. Staðan hjá hjúkrunarheimilum er grafalvarleg. Eins og hér hefur komið fram hafa forsvarsmenn hjúkrunarheimila jafnvel áhyggjur af hvernig staðið verði að gæði matar á þessum heimilum.

Herra forseti. Erum við virkilega komin þangað, þegar þetta eru áhyggjurnar sem eru bornar á borð fyrir fjárlaganefnd? Þetta eru ekki orð stjórnarandstöðunnar. Þetta eru orð forsvarsmanna hjúkrunarheimilanna. Ísland er 11. ríkasta land í heimi. Bara í gær sagði formaður Framsóknarflokksins og ráðherra í þessari ríkisstjórn að við værum í fortakslausu góðæri. Hvernig stendur þá á því, herra forseti, að við getum ekki gert betur þegar kemur að jafn sjálfsagðri þjónustu og hjúkrunarheimilum? Hér er engin sókn, hæstv. heilbrigðisráðherra.

Herra forseti. Af hverju getum við ekki einfaldlega hlustað betur á þá sem þarna starfa? Og af hverju getum við ekki gert betur gagnvart þeirri kynslóð sem byggði Ísland upp?