149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:55]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hér liggur fyrir breytingartillaga frá meiri hluta þessa þings um að lækka, takið eftir, lækka, fyrirhugaða fjármuni til öryrkja um rúman milljarð. Þarna stendur lækkunin svart á hvítu. Hér er bókstaflega verið að lækka fjármuni til öryrkja frá því sem var búið að ákveða þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram fyrir einungis tveimur mánuðum síðan. Í mínum huga er það fullkominn ræfildómur að útskýra þessa lækkun með þeim orðum að það hafi tekið tíma að útfæra kerfisbreytingar. Við getum vel látið þær breytingar virka afturvirkt. Við gerum það oft í þessum sal. Meira að segja hefur það verið gert þegar laun þingmanna hafa verið hækkuð. Enn á ný mun þetta fortakslausa góðæri sem ráðherrarnir stæra sig af ekki ná til öryrkja. Þið þurfið ekki annað en tala við einn öryrkja til að komast að því.

Herra forseti. Ég leyfi mér að stórefast um að nokkur öryrki eða fjölskyldur þeirra muni nokkurn tímann kjósa ríkisstjórnarflokkana aftur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (SJS): Þingmaðurinn segir?)

Ég segi nei.