149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:18]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þrátt fyrir ummæli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins um að húsnæðismálin og átök þar um séu lykillinn að góðu samkomulagi í komandi kjarasamningum, hafa heildarfjárhæðir sem ríkisstjórnin ver til húsnæðisstuðnings nánast verið óbreyttar á milli ára. Stjórnvöld verða einfaldlega að bæta í þennan húsnæðisstuðning og tryggja fleiri stofnframlög. Hér verður m.a. að byggja fleiri og hagkvæmari íbúðir og bregðast við grafalvarlegu ástandi á húsnæðismarkaðnum, ekki síst byggja upp leigumarkað án hagnaðarsjónarmiða.

Þess vegna leggjum við í Samfylkingunni til að stofnframlög til almennra íbúða aukist um 2 milljarða, bæði til að mæta uppsafnaðri þörf en einnig til að mæta kröfum vinnumarkaðarins.