149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

hækkun til öryrkja.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu sem var lagt fram í september var gert ráð fyrir því að launa- og verðlagsliðurinn í fjárlagafrumvarpinu yrði 3,4%. Að baki því stóð þá spá um 2,9% verðbólgu og gert var ráð fyrir að á næsta ári myndi kaupmáttur vaxa um 0,5%. Síðan fengum við nýja spá upp á 3,6% verðbólgu og þá kom upp þetta álitamál. Hefur ný spá með hærri verðbólguvæntingum breytt svigrúminu til launabreytinga á næsta ári? Við töldum svarið við því vera neikvætt. Það væri í sjálfu sér ekkert, þrátt fyrir hærri verðbólguspá, sem benti til þess að hægt væri að hækka laun meira á næsta ári í almennum kjarasamningum en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Þá grípur inn þetta ákvæði sem hv. þingmaður vísar m.a. til og tryggir ákveðna lágmarkshækkun sem er ávallt a.m.k. verðlagið. Gleymum því þó ekki að það geta komið upp aðstæður í landinu þar sem verðlag hækkar umfram laun. Það gerðist einmitt hér eftir hrunið og þá má segja að þeir sem eru á bótum almannatrygginga hafi ákveðna fallhlíf við slíkar aðstæður, njóti skjóls af þessari reglu. Þeir fengu sem sagt verðbólguhækkunina á bæturnar á meðan laun í landinu voru almennt að lækka.

Það eru til svör úr fjármálaráðuneytinu sem hafa borist skriflega til þingsins oftar en einu sinni um nánari túlkun á þessu tiltekna ákvæði. Þar er verið að vísa til samninga um almennar launahækkanir og þannig hefur greinin verið túlkuð fram til þessa. Ég hlýt að þurfa að vekja athygli á því að fyrir utan þessa 3,6% hækkun sem hér er verið að vísa til er gert ráð fyrir því að við bætist (Forseti hringir.) á næsta ári 2,9 milljarðar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eins og það stendur núna í þinginu. (Forseti hringir.) Þetta samanlagt mun hækka bæturnar um 5,8%, sem sagt langt umfram verðlag.