149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

[11:22]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Við erum að tala um svo stórar upphæðir. Þetta eru 15,5% af verðmætasköpun allra landsmanna. 15,5% af öllum þeim verðmætum sem landsmenn skapa með vinnu sinni fara til lífeyrissjóðanna. Er þetta verðugt verkefni? Að sjálfsögðu. Viljum við að til séu sjóðir til að tryggja að við höfum ellilífeyri og örorkulífeyri ef því er að skipta? Já, að sjálfsögðu.

En við verðum líka að geta tryggt að þeir sem fara með svona mikla peninga geri það vel. Þeir fara með 15,5% af verðmætasköpun landsmanna, sem í dag er búið að safnast upp í 4.000 milljarða. Þetta eru svo stórar tölur að maður skilur þær ekki nema maður setji það í samhengi. Þetta eru meira en 40 Landspítalar. Öll útgjöld ríkisins eru um 800 milljarðar á ári. Þetta eru 4.000 milljarðar sem búið er að safna upp.

En hvernig er stjórnun sjóðanna háttað? Hverjir eru það sem eiga að tryggja hagsmunagæslu með ellilífeyri okkar? Hverjir tryggja hana? Það fólk er valið, í mjög mörgum lífeyrissjóðum, að helmingi til af ASÍ og helmingi til af Samtökum atvinnulífsins. Hvernig treystir fólk því kerfi sem fer með örugga ævikvöldið okkar, sem á að vera öruggt?

Traust? Capacent Gallup gerði könnun 2015 og þar er traustið á lífeyrissjóðunum þannig að 52% treysta þeim ekki. Það eru ekki nema rúm 17% sem treysta lífeyrissjóðakerfinu. Það er mjög slæm staða fyrir þá aðila sem fara með 15,5% og eiga að tryggja okkur öruggt ævikvöld.

Hvað er til ráða? Það var gerð skýrsla að frumkvæði Landssamtaka lífeyrissjóðanna, ríkissáttasemjari gerði hana árið 2012, um hrunið og lífeyrissjóðina og hvað væri til úrbóta. Þar var lagt til að alla vega einn stjórnarmeðlimur væri kosinn af sjóðfélögum sjálfum. (Forseti hringir.)

Ég ætla að tala betur um það í seinni ræðu.