149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

[11:33]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir hvert einasta orð í ádrepu hv. þm. Þorsteins Víglundssonar áðan. Það var þörf ádrepa.

Ég ætla hins vegar að fara aðeins inn á þær vangaveltur hvort, og þá með hvaða hætti, íslenskir lífeyrissjóðir sem eru önnur meginstoð á eignamyndun íslensks launafólks, á eftir íbúðinni sem fólk kaupir — það er þess vegna sem ég og Sjálfstæðisflokkurinn leggjum svona mikla áherslu á séreignarstefnuna. Hún er ein af undirstöðum, ásamt lífeyrissjóðakerfinu, eignamyndunar launafólks.

Þessi hugmynd um að lífeyrissjóðirnir taki þátt í mikilvægum samfélagsverkefnum er góð og gild. En slík þátttaka, hvort heldur það eru vegaframkvæmdir, uppbygging hjúkrunarheimila eða íbúða með einhverjum hætti eða hvaða önnur verkefni það eru, verður að vera á forsendum lífeyrissjóðanna.

Mér finnst stundum örla á því í opinberri umræðu um þátttöku lífeyrissjóðanna að nota eigi þá sérstaklega til að niðurgreiða slíkar framkvæmdir. Ég vara við öllum slíkum hugmyndum. Þær eru stórhættulegar, jafn hættulegar og hugmyndir um að innleiða hér gegnumstreymiskerfi í lífeyrissjóð. Gegnumstreymiskerfi er ávísun á það að börnin mín og barnabörn, vonandi fæ ég þau, þurfi að bera þyngri byrðar í framtíðinni út af mér og okkur sem hér sitjum, ef við innleiðum gegnumstreymiskerfi. Það er hættuleg hugmynd. Auk þess má halda því fram að við séum raunar með gegnumstreymiskerfi þegar kemur að tryggingagjaldinu vegna þess að það er auðvitað að hluta til gegnumstreymiskerfi til að fjármagna almannatryggingakerfið.