149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

[11:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fyrir hverja eru lífeyrissjóðirnir? Fyrir miðaldra karlmenn á góðum launum, háum launum. Fyrir hverja eru þeir ekki? Mæður, konur, sem hafa lítið getað nýtt vinnugetu sína. Á ég að gefa ykkur dæmi? 25.000 kr. fyrir öryrkja úr lífeyrissjóði og 25.000 kr. úr séreignarsparnaði. Hverju skilar það? Viljið þið giska? Núll.

Hvernig í ósköpunum getum við byggt upp svona kerfi?

Við skulum taka annað dæmi. 50.000 úr lífeyrissjóði og 50.000 úr séreignarsparnaði. Viljið þið giska á hvað það skilar sömu persónu miklu? Tíuþúsundkalli, 90% skattur. Þetta er hið yndislega kerfi.

Hvað tapaðist í skatttekjum í hruninu? 250–300 milljarðar.

Síðan er séreignarsparnaður. Séreignarsparnaður er bannorð fyrir öryrkja. Það sýnir sig að séreignarsparnaður skilar sér, það er verið að nota hann til að leyfa fólki að fjárfesta í fyrstu íbúðum og öðru — en ekki fyrir öryrkja.

Ég myndi telja að ættum að koma þessu í séreignarsparnað þannig að fólk fengi að eiga þetta. Vitið þið hvað reksturinn á þessu batteríi kostar? 17–20 milljarða á ári. Í tíu ár eru það 170–200 milljarðar, í 20 ár 340–400 milljarðar, í 30 ár 500–600 milljarðar.

Hvers lags bákn er þetta? Til hvers er þetta búið til? Jú, fyrir útvalda, þá ríku.

Það er einfalt mál. Af hverju erum við ekki bara með þetta allt í séreignarsparnaði? Þá á fólkið þetta og fólkið getur erft þetta. (Forseti hringir.) En, nei, við notum þetta fyrir ríka kalla til að lemja á mæðrum og konum þessa lands.