149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

kynjavakt Alþingis.

48. mál
[12:35]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög góða ræðu. Hann fangaði margt betur sem ég vildi sagt hafa en sagði ekki sjálfur. Ég þakka sérstaklega jákvæðar undirtektir og viðhorf til þess sem er, eins og ég kom inn á í ræðu minni, nýtt fyrir okkur þó að það þekkist úti í heimi.

Eins og hv. þingmaður kom inn á þurfum við alltaf að vera á vaktinni. Það er ýmislegt sem ég hef þurft að læra, ekki vitað að væri til víða úti í heimi sem tæki, tól, reglur og viðhorf þegar kemur að því að bæta hag sem flestra og auka jafnrétti kynjanna.

Það er alltaf gott að læra og horfa til þess sem gengur vel annars staðar og vera akkúrat óhræddur við að prófa: Virkar þetta hér eða virkar það ekki? Og svo: Er þetta nákvæmlega leiðin eða eigum við eitthvað að hliðra henni til eins og hv. þingmaður kom vel inn á?

Ég kvaddi mér aðallega hljóðs, virðulegur forseti, vegna þess að hv. þingmaður spurði: Eigum við að koma á fót enn einni nefndinni? Án þess að hv. þingmaður gæfi nokkuð út um það hvort það væri rétt eða rangt vildi ég ítreka að hér er ekki verið að leggja til mikla nefnd sem hafi einhvers konar skipunarvald eða sé með mikla byggingu yfir sér. Eins og hv. þingmaður lýsti svo vel er einfaldlega verið að taka saman allar upplýsingar, að einhver aðili sé ábyrgur fyrir því, um stöðuna eins og hér er farið ítarlega yfir. Síðan verði þetta bara árleg skýrsla, nánast eins og ársskýrsla. Það er engin sérstök nefnd eða yfirbygging þótt vissulega þurfi að vera eitthvert batterí sem ber ábyrgðina á því.