149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

kynjavakt Alþingis.

48. mál
[13:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum að þessari tillögu til þingsályktunar um kynjavakt Alþingis og langar að segja nokkur orð um þetta mál, sér í lagi í kjölfar þeirra orðaskipta sem hér hafa átt sér stað. Ég tel þetta mál mjög mikilvægt og ég tel einmitt mjög mikilvægt að það komi hér fram í formi þingsályktunar að gerður verði listi sem safnar saman á einn stað upplýsingum um stöðu kynjanna á Alþingi. Það er alveg rétt, sem hefur komið fram hér í umræðunni, að auðvitað væri hægt að láta taka þennan lista saman og birta einhvers staðar á netinu. En í mínum huga birtist ákveðið pólitískt leiðarstef í því að þetta sé gert í gegnum ályktun frá Alþingi. Þar með er verið að segja: Við teljum sem þjóðþing mikilvægt að þessu sé haldið saman og að þetta sé birt.

Í mínum huga sprettur jafnréttissamfélag ekki bara einhvern veginn upp úr moldinni heldur þurfum við að vinna að því. Staða Íslands er vissulega góð í alþjóðlegum samanburði. En þess vegna er líka svo mikilvægt að fylgjast með því hvaða breytingar verða og í hvaða átt. Þær geta auðvitað orðið til þess að hér fari konur að ráða öllu. Þetta er bara eitthvað sem við þurfum að fylgjast með. Ég tel þess vegna mikilvægt að þetta komi fram sem stefnumótun frá Alþingi, að vilja gera þetta.

Mér finnst mikilvægt að málið nái einnig til annarra starfsmanna en ekki bara okkar sem erum þjóðkjörin. Þetta er ofboðslega flókinn og margbrotinn staður — ég ætla ekki að segja vinnustaður. Þetta er ofboðslega flókinn og margbrotinn staður þar sem eru líka mjög flókin og margbrotin samskipti milli fólks sem getur hreinlega verið í mjög ólíkri valdastöðu innan hússins. Mér finnst mikilvægt að reyna að ná utan um það líka.

Eins og fram hefur komið í máli hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppé, sem er 1. flutningsmaður, hefur þetta verið útfært hjá öðrum. Vísað er í Alþjóðaþingmannasambandið í þeim efnum. Ég held að að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd reynist ekkert mjög flókið að lista það nánar upp í greinargerð, sem hefur verið saknað úr greinargerð með þessu máli, hvernig málum þar er háttað.

Ég tel að ef hinn pólitíski vilji sé yfir höfuð fyrir hendi sé lítið mál að koma þessu á. Það yrði okkur sem samfélagi og okkur sem Alþingi, þessari stofnun, bæði löggjafarþingi og vinnustað, til heilla