149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

náttúruvernd.

82. mál
[14:07]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér náttúruvernd og það er gott. Stundum er sagt að einfaldasti mælikvarðinn á náttúruvernd eða umhverfisvernd sé einmitt rusl á almannafæri. Ég tel að undanfarin 10, 20 til 30 ár hafi það verið verulegt vandamál á Íslandi, rusl á almannafæri. Það er búið að telja það hér upp — þetta eru umbúðir, matarleifar, glerbrot, úrgangur frá fyrirtækjum og heimilum og meira að segja spilliefni, rafgeymar eða eitthvað annað, úr sér gengnir hlutir, búsáhöld, efni úr viðgerðum, fasteignum, timbur og þess háttar og heilu bílhræin hingað og þangað úti í náttúrunni. Þetta þekkjum við öll. Svona umgengni er jafnt í þéttbýlinu sem í kringum þéttbýlið, nálægt því, við vegi úti á landi og á hálendinu eins og kemur fram í frumvarpinu. Yfirleitt snýst þetta um það að menn eru að hlífa sér við að fara með þetta á tiltekna móttökustaði, spara peninga, spara ferðir, spara tíma og telja þetta forsvaranlegt þannig séð.

Hér er ég ekki einu sinni að tala um annað sem ég læt stundum, ég segi það bara hreint út, fara í taugarnar á mér en það er drasl á heimalóðum, hvort sem það er í sveitum eða í bæjum. Þetta er inni á eignalóðum eða leigulóðum, það er alveg sérkapítuli út af fyrir sig að bæta umgengni þar. Hún hefur batnað stórlega, en enn er nokkuð langt í land með það, margir mættu bæta sig. Við sem búum hér í höfuðborginni teljum mörg hver að rusl á almannafæri sé kappnóg. Ég ætla ekki að nefna nein dæmi, en það gildir þar eins og annars staðar í þessum efnum, að á fjölförnustu stöðunum er tilhneiging til að rusl sé sjáanlegra en víða annars staðar.

Þá almennt um viðbrögð við ruslaómenningu. Það þarf náttúrlega að bæta hreinsun. Þó að við ætlum okkur að breyta viðhorfi fólks þá tekur það yfirleitt töluvert langan tíma, þannig að bæta þarf hreinsun, hvort sem er í þéttbýli eða utan þéttbýlis. En auðvitað skiptir mestu máli að bæta umhverfisvitund mjög margra íbúa og ferðamanna, því að ég hef líka oft horft á að margir ferðamenn eru alveg jafn kærulausir eða kærulausari en við heimamenn og það er í sjálfu sér eitthvað sem við eigum erfiðara með að eiga við vegna þess að við hittum það fólk kannski ekki nema einu sinni. Það kemur ekki nema einu sinni hingað og er á ferðalagi vítt og breitt um heiminn.

Hvað um það. Þetta er samt sem áður minni hluti fólks í það heila tekið en eins og alltaf er, þegar menn fara út fyrir þennan viðurkennda ramma, þá er fyrirferðin töluvert mikil. Mig langar að fjalla aðeins um vitundarmál, um umhverfisvitundina, og minna á að það eru auðvitað sektir erlendis. Ég hef t.d. verið í Singapúr þar sem manni þótti jafnvel nóg um. Það mátti ekki einu sinni gefa fuglunum. Maður fékk 500 singapúrska dollara í sekt ef það komst upp og eftirlitið var býsna mikið. Hér eru slík sektarákvæði nýmæli. Það er jú það sem við erum að ræða hér að mörgu leyti, eigum við að fara þessa leið og með hvaða hætti eða ekki, vegna þess að þetta er nýtt? Og með eftirlit og ekki eftirlit — ef við tökum hálendið sjálft, þetta snýr meira eða minna að þjóðvegum á hálendi — þá eru bæði lögregla og landverðir á þessum stöðum, bæði við þjóðvegi landsins og á hálendinu, svo að auðvitað er eftirlit fyrir hendi en það er spursmál hvort þyrfti að auka það. Það yrði þá peningaspursmál. En á móti kemur að það er auðvitað gott að hafa eitthvert ákvæði, einhvers konar refsiákvæði, hvort sem það heitir sekt eða eitthvað annað, í lögum, vegna þess að það hefur fælingarmátt eins og hér hefur komið fram. Til þess eru nú sektir af þessu tagi jafnvel í hærra lagi en þetta eru kjarnaatriði sem við eigum eftir að ræða betur.

Hitt kjarnaatriðið sem ég vil svo ræða er auðvitað fræðsla. Það þarf að gera ráð fyrir því að svona lagabreytingu fylgi ætlanir okkar þingmanna og löggjafans um fræðslu — við skulum hreint og beint kalla það áróður í þessum efnum og hann kostar sitt. Þarna sjáum við mögulega verkefni sem þarf að takast á við sem kostar einhvern pening. Þegar kemur að betri þrifum þá er það eitthvað sem snýr að öllum, eigendum heimila og fyrirtækja og stofnunum. Ég hef aldrei skilið það í sjálfu sér. Tökum veitingahús, það er opið fram eftir kvöldi og fólk fer út til að reykja, hefur jafnvel bjórglas í hendi og annað slíkt. Ef borgaryfirvöld eða bæjaryfirvöld eða hvað það nú er koma ekki og þrífa þá er það mjög sjaldgæft að eigendur viðkomandi fyrirtækis, sem var að selja vöruna, gangi út fyrir og hirði þetta upp. Þetta tekur kannski tíu mínútur eða korter eða minna. Þessi hugsun, að horfa svolítið út fyrir eignina sína og taka þar til hendi, er okkur býsna fjarlæg en mjög algeng víða erlendis.

Síðan þurfa sveitarfélög og borgaryfirvöld og aðrir, þeir sem hafa yfir ferðamannastöðum að ráða, hótelum eða stöðum sem eru algengir sem ákvörðunarstaðar ferðamanna út af náttúrufegurð, auðvitað líka að taka til hendinni. Ég myndi líka hvetja til þess að til væri blár her eins og sá sem gengur um strendur og hirðir upp plast og annað, hann væri líka til á hálendi og á víðavangi. Ég veit að slíkir sjálfboðaliðshópar hafa farið um en það væri gaman að sjá eitthvert skipulag á því, einhvers konar blár her væri skemmtilegur í þessu tilviki.

Svo komum við að hálendinu og ýmsum áfangastöðum og ílátunum. Þetta er tiltölulega auðvelt þar sem við erum nálægt þjóðvegum og þaðan sem tiltölulega stutt er að fara með úrgang sem safnast fyrir. Ílát þarf jú að hreinsa jafnvel á hverjum degi eða oftar eða fara með það á móttökustöðvar. Þar sem minna er um slíkt, og inni á hálendinu, þá held ég að reglan eigi að vera sú að fólk taki úrganginn með sér, þ.e. það sem er á þannig formi að hægt er að taka það með. Þetta er algild regla í þjóðgörðum mjög víða um heim og hún getur verið gríðarlega ströng. Á Galapagoseyjum má náttúruskoðandinn ekki fara með neitt inn á viðkomandi svæði og hann má heldur ekki taka neitt með sér af þessu viðkomandi svæði. Ef það er eitthvað sem hann þarf að nota eða eitthvert rusl sem hann finnur á hann að taka það með sér og skila því sjálfur í byggð til móttökustöðva. Það er býsna góð regla, svona til að því sé haldið til haga.

Við erum hér fyrst og fremst að fjalla um frumvarp sem snýr að hálendi og þjóðvegum og það er auðvitað vegna þess að þessi tiltekna breyting kallast á við lög um náttúruvernd. Það hefur jú komið fram að þetta ætti hugsanlega að vera eitthvað víðtækara, en látum það vera. Þetta liggur frammi og í grunninn er ég sammála hugsuninni sem liggur að baki. Þetta mætti vera ítarlegra. Það á eftir að hyggja betur að útfærslu þessara hugmynda og skipulagi sem því tengist. Ég skal ekki spá því hvernig hv. umhverfis- og samgöngunefnd tekur á þessu. Hún gerir auðvitað sitt besta. En það er alla vega búið að hleypa startskotinu af hér í mjög þarfri umræðu um umgengni á almannafæri, hvort sem það er í byggð eða óbyggð, og það ber að þakka.