149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[17:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég myndi í fljótu bragði halda að ef einhver væri mjög hlynntur hvalveiðum myndi sá einstaklingur sennilega ekki berjast mjög harkalega fyrir þessu máli. Ef einhver er mjög hlynntur hvalveiðum þá væri honum væntanlega meira að skapi að sú skýrsla sem þegar er til myndi bara lifa áfram sem lokaniðurstaðan. Samt sem áður sé ég alveg fyrir mér að fólk þeirrar skoðunar myndi styðja málið þótt það berðist kannski ekkert eitthvað svakalega harkalega fyrir því. Það myndi styðja málið til að fá fram upplýsingar.

Ég vil bara ítreka það og árétta að ég tel þetta vera rétta skrefið frekar en að fara beint í að banna hvalveiðar, sem ég myndi sjálfur persónulega greiða atkvæði með. Þetta er rétta leiðin til að fá alla með sér í lið og fá fram gögnin sem þarf til að sannfæra fólk, sem er líka ekki alveg búið að ákveða sig.

Hvað varðar siðferðilegu spurninguna þá hugsa ég að ég hafi ekki miklu meira að bæta við í þeim efnum, heldur fer bara yfir það sjálfur í minni ræðu hér á eftir. En ég þakka hv. þingmanni svarið.