149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er erfitt að gera við því þegar menn og konur og hv. þingmenn verða furðu lostnir yfir þingmálum sem hér eru flutt. Fyrst var minnst á það að ég hefði sagt að ég væri ekki mjög áhugasamur um málið og þess vegna hlyti mér að hafa gengið til stríðni með því að vera á þessu máli. Ég er auðvitað mjög áhugasamur um málið, ég var að tala um að ég brynni ekki fyrir því í því samhengi að mér þætti ljótt í sjálfu sér að deyða hval. Það var á þeim forsendum sem ég talaði um að ég væri ekki áhugasamur. Ég er mjög áhugasamur um að við högum okkur þannig að það skaði ekki íslenskt samfélag.

Af hverju forsætisráðherra? Ég veit það ekki. Kannski erum við bara svona stríðin, kannski er komið svona stríðnispúkafélag í þingið, líkt og aðrir flokkar hafa komið sér upp fýlupúkafélagi. Það kann vel að vera. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að hvalveiðarnar snerta mjög marga þætti og eins og hv. þingmaður réttilega nefndi er hæstv. forsætisráðherra verkstjóri ríkisstjórnarinnar.

Það er talað um að standa í lappirnar og að sjálfstæð þjóð hafi fullan rétt til að nýta sér sínar auðlindir. Þetta er svona orðræða sem mér finnst alltaf svolítið vond. Það er erfitt að rökræða við fólk á þessum forsendum. En að láta sér detta í hug að bera saman hvalveiðar nútímans á Íslandi við grindhvalaveiðar Færeyinga og þann þátt sem þær skipa í færeysku samfélagi eða frumbyggjaveiðar Grænlendinga, finnst mér eiginlega vera algjörlega út í hött. (Forseti hringir.) Þetta er með engum hætti sambærilegt við þær veiðar sem Íslendingar stunda núna á stórhvelum, ekki á nokkurn einasta hátt.