149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[10:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef upplifað eitt og annað í þessum þingsal í næstum 20 ár og ég held að rödd sérhagsmunaafla hafi aldrei hljómað jafn skýrt og áðan úr ranni formanns nefndarinnar og 1. flutningsmanns meirihlutaálits. Það verður að segjast alveg eins og er.

En mig langar að spyrja: Hvað liggur á? Það er lækkandi gengi. Það er lækkandi olíuverð. Útgerðin stendur alveg þokkalega og vel það. Hvað liggur á? Af hverju var ekki hægt að nýta tímann betur og fara í samráð þvert á flokka? Það var ekki gert. Af hverju var það ekki gert? Hvað liggur á?

Mig langar að spyrja: Hvað liggur meira á t.d. en að uppfylla loforð gagnvart eldri borgurum og öryrkjum? Af hverju þarf útgerðin ganga fyrir eldri borgurum og öryrkjum? Það eru tveir dagar síðan ríkisstjórnarflokkarnir samþykktu á þingi breytingartillögu í þá veru að framlög til eldri borgara og öryrkja voru lækkuð. Spurning mín er mjög einföld: Hvað liggur á? (Forseti hringir.) Af hverju á að taka útgerðina fram yfir eldri borgara og öryrkja? (Gripið fram í: Segðu satt.)