149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Ég veit að hann ber hag lítilla og meðalstórra útgerða fyrir brjósti og hefur áhyggjur af þeim erfiðu rekstrarskilyrðum sem hafa verið undanfarin ár sem og af samþjöppun. Mig langar að spyrja hvort hann telji samt ekki að þetta frumvarp sem slíkt, þar sem menn nálgast mjög í afkomu þegar það fer að fullu að gilda árið 2020, verði næmt á breytilega afkomu miðað við nytjastofna, miðað við þá útreikninga sem þarna liggja undir. Eins og hv. þingmaður veit óskaði ég eftir upplýsingum í nefndinni, við vinnu hennar, frá Hagstofunni, um að greina niður afkomu útgerðarflokka. Það var komin greining á afkomu útgerðarflokka milli 10 og 30 tonna sem reyndist mjög álíka og heildarafkoma.

Ég skoðaði þetta með fleirum. Niðurstaðan var sú að styrking á frítekjumarki myndi þegar upp væri staðið nýtast best þeim minni. Það myndi samt nýtast öllum því að verið er að hækka frítekjumarkið frá því sem er nú um 60%. Það munar um það. Allir fá það. Á næsta ári er tekið meðaltal af hverri tegund og er í bráðabirgðaákvæði fast gjald, sem þýðir að eins og þorskurinn, sem var komin upp í veiðigjald upp á 23 kr., (Forseti hringir.) fer niður í um 13 kr., sem er 40% lækkun.

Telur hv. þingmaður ekki að þarna sé komið ansi vel til móts við fyrirtæki sem eiga í erfiðleikum?