149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:34]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka HV. þingmanni fyrir ræðuna. Við sitjum báðir í atvinnuveganefnd og það er augljóst þar að þingmaðurinn hefur mikinn áhuga og vit á sjávarútvegi og hefur starfað lengi við hann, við veiðar.

Nú hef ég fylgst með einum hlut sem er hversu mikið er flutt af óunnum fiski úr landi, fyrst og fremst í gámum. Nú virðist vera mikil aukning á þessu ári í flutningi á óunnum fiski með gámum úr landi. Það stefnir í að þetta fari úr 35.000–36.000 tonnum í 46.000–48.000 tonn núna á milli ára.

Þrátt fyrir að við séum með væntanlega hátæknivæddasta sjávarútveg og vinnslu á fiski í heiminum í dag, a.m.k. á toppnum með okkar góðu tækni og fyrirtæki sem framleiða hátæknibúnað í sjávarútveginum, virðist þessi þróun farin að verða býsna hröð. Það er verið að flytja út meira og meira af óunnum fiski, (Forseti hringir.) ef HV. þingmaður gæti komið aðeins inn á það. (Forseti hringir.) Ég kem betur inn á þetta í næstu spurningu.