149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

fjárframlög til háskólastigsins.

[15:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Já, það er kannski ekkert skrýtið að ég hafi áhuga á háskólastiginu eins og væntanlega allir þingmenn hér inni. Það hefur fátt verið meira rætt en það hvað skólarnir okkar skipta miklu máli þegar kemur að því að búa sig undir gjörbreytta framtíð. Ég hvet hæstv. ráðherra til að leggja fram gögn. Það nægir nefnilega ekki að segja hlutina nógu oft til að fólk trúi því.

Bara á þessu ári vantar nefnilega 3.143 millj. kr. til að ná meðaltali OECD um útgjöld á hvern nemanda á ári ef allt er tekið inn í, hagvöxtur og fjöldi nemenda. Ég ítreka líka að formaður fjárlaganefndar hefur upplýst um þennan vinnuhóp og segir þar að verið sé að finna bestu leiðina til að ná þessu markmiði. Ég kalla þá bara eftir reikningsgögnum þannig að við getum séð þetta svart á hvítu og ég ítreka spurninguna: Kemur til greina að ná þessu með því að fækka nemendum?