149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

bætur til öryrkja.

[15:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson vilji ræða réttlæti hér í sölum Alþingis, því að þá finnst mér rétt að ræða hvað við höfum verið að gera, ekki bara í þeim fjárlögum sem enn eru til umræðu á Alþingi heldur líka í síðustu fjárlögum.

Hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega stöðu öryrkja. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins. Það er þess vegna sem sú ríkisstjórn sem nú situr hefur aukið framlög. Ef fjárlagafrumvarpið verður að lögum eins og það lítur út nú eftir 2. umr. hafa framlög til þessa hóps aukist um 9 milljarða í tvennum fjárlögum sem lögð hafa verið fram af þessari ríkisstjórn. Það skiptir verulegu máli. Það er veruleg aukning til viðkvæmasta hóp samfélagsins, fyrir utan þær breytingar sem hér eru lagðar til á skattkerfi og ég hef margoft farið yfir í þessari pontu, hvort sem það er aukning barnabóta til tekjulágra barnafjölskyldna eða hækkun á persónuafslætti umfram neysluvísitölu sem gagnast best tekjulægstu hópunum.

Þessari ríkisstjórn er alvara með því að í fjárlögum eigi sérstaklega að koma til móts við tekjulægri hópa. Þessari ríkisstjórn er alvara með að byggja hér upp samfélagslega innviði, og þar skipta kjör örorkulífeyrisþega svo sannarlega máli. Þess vegna sjáum við þessa miklu aukningu, 9 milljarða í tvennum fjárlögum miðað við 2. umr. fjárlaga.

Ég kann ekki að meta það þegar hv. þingmaður talar hér um kylfur í samskiptum við þennan viðkvæma hóp. Þannig hef ég ekki litið á þann hóp sem er starfandi undir forystu félags- og jafnréttismálaráðherra þar sem sitja bæði fulltrúar meiri hluta og minni hluta.

Ég tel að það sé sameiginlegt markmið allra þeirra sem sitja í þeim hópi að auka samfélagsþátttöku öryrkja. Samkvæmt upplýsingum frá Öryrkjabandalaginu stendur Ísland einna lakast þegar kemur að Evrópulöndum með þátttöku fatlaðs fólks á vinnumarkaði. Viljum við breyta því? Ég tel að allir í þessum hópi vilji breyta því. (Forseti hringir.) En auðvitað þurfum við að finna skynsamlegar leiðir og reka ekki veikt fólk út á vinnumarkað gegn vilja þess. Um það á þetta ekki að snúast.