149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

bætur til öryrkja.

[15:20]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Þó að það sé varhugavert get ég alveg sagt frá því að Miðflokkurinn hyggst leggja fram tillögur sem munu bæta starfsþátttöku öryrkja. En það er ekki það sem við ræðum hér nú. Við erum að ræða um það hvort umsamdar bætur muni greiðast þessum hópi sem berst við fátækt á hverjum degi nú þegar um áramótin í staðinn fyrir, að því er sagt er, á vormánuðum en gæti alveg eins dregist fram eftir árinu 2019. Mér er alveg kunnugt um þessa 9 milljarða sem hæstv. forsætisráðherra talar um, en það nægir ekki þegar það er búið að lofa ákveðnum hópi einhverju, hópi sem stendur svo illa að hann þolir ekki bið. Eins og ég sagði þá eru peningar til.

Það er kannski athyglisvert líka að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er rosalega lítið talað um skattinnheimtu. Ég man þá tíð á árunum 2013–2016 þegar mikið var talað um að ríkisstjórnin sem þá sat væri að afsala sér tekjum (Forseti hringir.) en það er mjög lítið talað um bætta skattinnheimtu í þessu fjárlagafrumvarpi. Kannski er það leið til að standa við gefin loforð, hæstv. forsætisráðherra.