149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

bætur til öryrkja.

[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þó svo að hv. þingmaður fari hér um víðan völl og fari úr einu í annað skal ég reyna að svara honum. Það er svo að þeir 4 milljarðar sem lagðir voru til í fjárlagafrumvarpinu voru eyrnamerktir kerfisbreytingum í þágu örorkulífeyrisþega. Ég hefði gjarnan viljað sjá þeirri vinnu lokið. Á þingmálaskrá var gert ráð fyrir frumvörpum um þau efni í október. Þau eru enn ekki komin fram, því miður, en ég vonast að sjálfsögðu til þess að þau komi sem fyrst fram.

Hv. þingmaður fer svo að ræða hér skattskil, sem vissulega er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Eins og hv. þingmann rekur minni til var í tíð minnar ríkisstjórnar samþykkt frumvarp á vormánuðum til að bæta skattskil og við eigum von á öðru slíku frumvarpi frá hæstv. fjármálaráðherra til að vinna einmitt að bættum skattskilum, vonandi núna fyrir áramót. Ég vænti þess að hv. þingmaður verði á bátnum með okkur í því að bæta skattskil því það er svo sannarlega gert ráð fyrir þeim og við eigum auðvitað hvergi að draga af okkur í baráttunni gegn skattsvikum.