149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

um fundarstjórn.

[16:39]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér voru bornar alvarlegar ásakanir á einn þingmann og raunar allan þingheim. Þær ásakanir voru teknar alvarlega. Málið hefur verið unnið mjög vel og vandlega í forsætisnefnd, farið ofan í það og krufið vel. Ég hélt að við værum komin að punkti þar. Það er ekkert í málinu sem bendir til þess að hægt sé að fara með það eitthvað lengra. Ég lít svo á að það sé fullrannsakað, þetta liggur allt ljóst fyrir. Allir fulltrúar í forsætisnefnd, fyrir utan einn, voru sammála því. Það er ekkert þarna á bak við sem hægt er að gera tortryggilegt og ég bið menn um að láta af ásökunum og látum hérna inni.