149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:31]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og fyrirspyrjanda, Óla Birni Kárasyni, fyrir að bregða upp 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga. Það skiptir máli að þar stendur að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar.

Samt hefur verið mjög mikið deilumál hvernig eigi að útdeila því. Í auðlindanefndinni frá árinu 2000 var alveg skýr niðurstaða um að það ætti að tímabinda samninginn, tímabinda afnotaréttinn. Það hefur ekki verið gert, m.a. af því að ýmsir þingmenn í öllum flokkum hafa móast við að tímabinda réttindin. En í því felst tillaga okkar.

Þess vegna hlýt ég að spyrja Sjálfstæðisflokkinn. Ég mun fylgjast spennt með því þegar við leggjum til breytingartillögu varðandi 1. gr. um að veiðigjöldin séu gjald fyrir tímabundin afnot. Þá ætti ekki að vera neitt tiltökumál fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græn og Framsókn að samþykkja nákvæmlega það atriði, (Forseti hringir.) að þetta sé tímabundinn afnotaréttur. Það er það sem skiptir mestu máli.