149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Alveg rétt og ég er sammála hv. þingmanni um að fjárfestingar í sjávarútveginum hafa verið miklar enda var gríðarleg fjárfestingaþörf komin þar inn. Það er líka ágætt að minnast þess að þrátt fyrir háar tölur og mikil skrif hér á hrunárunum tapaði þjóðin líklega einna minnst á sjávarútvegi og landbúnaði. Þar stóðu menn betur í skilum en á flestum öðrum stöðum, en menn töpuðu mikið í verslun, þjónustu og bankageiranum, fjármálaapparatinu öllu saman. En þegar kemur að því hvort við eigum að vera með nýtingarsamninga þá segi ég: Já, ég er hlynntur því að við tökum upp nýtingarsamninga sem hafa innbyggðan ákveðinn fyrirsjáanleika fyrir þá sem njóta þeirra.

Við getum að sjálfsögðu deilt um, haft skoðun á því, hversu lengi þeir eigi að gilda, hvernig endurnýjun á þeim eigi að vera o.s.frv. Þetta er útfærsluatriði sem þarf vissulega að ræða. En þessi ríkisstjórn hefur ekki gert neitt til að reyna að leita sátta um það mál frekar en annað í þessu ferli. Það má alveg ímynda sér að erfitt sé að ná sátt um stjórnun á takmarkaðri auðlind líkt og sjávarútvegurinn er. Þetta er takmörkuð auðlind, við vitum það. Það er eðlilegt að fleiri sækist í hana en kannski rúmast í henni. Við getum líka rætt það hvernig afraksturinn eigi að skiptast og allt það.

Við þurfum að byrja á því að taka skýrar fram að þetta sé auðlind þjóðarinnar. Við þurfum að skýra það ákvæði í stjórnarskránni, ég held að það sé það eina sem ástæða er til að breyta í stjórnarskránni. Síðan þurfum við að auka fyrirsjáanleikann í greininni varðandi það hverjir eða hvernig við sækjum afurðina og líka að sjálfsögðu hvernig menn greiða fyrir afnotin. Það þarf að vera fyrirsjáanleiki þar líka. Það er ekki hægt að vera að hræra í þessu endalaust fram og til baka.