149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:01]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega ekki boðlegt að tala með þeim hætti sem hv. þingmaður gerir þegar það liggur fyrir, og ég benti mér að segja á þá staðreynd, að á fimm ára tímabili, árin 2013–2017, greiddi sjávarútvegurinn 105 milljarða í gjöld, í veiðigjöld, tekjuskatt og tryggingagjald. 105 milljarða, meira en nokkur önnur atvinnugrein. Svo tala menn eins og sjávarútvegurinn sé einhver þurfalingur eða á spena hjá ríkissjóði.

Það er hins vegar rétt að þegar sjávarútvegurinn varð fyrir áfalli, eins og flestallir landsmenn og flestöll fyrirtæki, og var mjög skuldsettur fengu menn reiknaðan afslátt þ.e. skuldsettustu útgerðirnar, til þess að koma í veg fyrir að þær sigldu hreinlega í strand. Það er alveg rétt.

En sá tími er liðinn. Sá tími er liðinn, hv. þingmaður. Hann ætti að fagna því og við fögnum því að búið er að afnema þá ívilnun, ef menn vilja kalla svo. En er það ívilnun þegar lögð eru hærri gjöld á sjávarútveg (Forseti hringir.) á Íslandi, sem er í harðri, alþjóðlegri samkeppni, en samkeppnisaðilar hans þurfa að greiða? Er það ívilnun?