149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil höggva í sama knérunn og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson. Mér finnst nákvæmlega ekkert óeðlilegt við það að óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra sé viðstaddur umræðu um veiðigjöld, forsætisráðherra ríkisstjórnar sem talar um aukið samráð og samvinnu við Alþingi og eflingu þess, svo að hægt sé að spyrja hana hvaða skoðun hún hafi á því að málinu hafi verið þröngvað í gegnum Alþingi án samráðs í samráðsgáttinni og tekið út í ósætti, hvaða skoðun hún hafi á veiðigjaldafrumvarpinu, auðlindarentunni, eða svo á að heita, af nýtingu á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Að láta setja ofan í sig af forseta í miðri ræðu vegna þess að hann hefur ímugust á því hvernig þingmenn tala — ég fer að hætta að trúa því að við höfum hér forseta allra þingmanna.