149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hann fór vel yfir stefnu síns flokks og ég tel mikilvægt að halda því til haga að þótt um sé að ræða þrjá flokka sem standa sameiginlega að breytingartillögu hefur hver flokkur ákveðnar áherslur sem eru ólíkar. Þess vegna er svo áhugavert að fylgjast með því hvernig stjórnarflokkarnir taka þessari sameiginlegu viðleitni okkar til að sameinast um þau atriði sem við höfum talið ákveðinn samhljóm um, þ.e. að ná samstöðu um að gjaldið fyrir afnot af okkar sameiginlegu auðlind sé tímabundið — sem er lykilatriði til að undirstrika sameign þjóðarinnar — og síðan hitt að fara í uppbyggingarsjóð. Við getum alveg farið í alls konar útfærslu en þetta er alla vega viðleitni til að reyna að ná meiri samstöðu um þessa mikilvægu atvinnugrein.

Hér í dag hafa komið fram eðlilegar athugasemdir, m.a. frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins — það getur verið að það sé bara einn frá Sjálfstæðisflokknum búinn að tala, hv. þm. Óli Björn Kárason — ákveðnar efasemdir um að einungis eigi að leggja auðlindagjald á eina atvinnugrein. Ég vil taka undir það grunnprinsipp sem kom fram í niðurstöðu auðlindagjaldsnefndarinnar frá árinu 2000, að leggja ætti auðlindagjald á allar atvinnugreinar en að það þyrfti líka að byrja og þá á sjávarútveginum.

Ég spyr hvort hv. þingmaður sé sammála mér í því að þessi nálgun eigi að vera almenn, að fyrir notkun á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar eigi að greiða auðlindagjald. Og hvort hann geti verið sammála mér um að ekki sé óeðlilegt að við byrjum á sjávarútveginum en í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga segir að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar. Er ekki ósköp eðlilegt að byrja þar sem sérstakt lagaákvæði er um auðlindarétt þjóðarinnar að fiskimiðunum?