149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:50]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði reyndar að fara í mjög svipaða átt og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir. Fyrirtæki eru auðvitað í aðeins misjafnri stöðu eftir starfsemi, hvað varðar annars vegar hagræðingu í rekstri sínum og hins vegar ýmsa aðra þætti. Það er vel þekkt að stór fyrirtæki eiga það til að stækka hraðar en minni fyrirtæki í eðlilegu árferði.

Þetta ýtir undir það að misskiptingin milli stærstu og minnstu fyrirtækjanna verður meiri, nema eitthvað sé gert til að sporna við henni. Það hafa komið tillögur, t.d. núna rétt áðan, um að vera með einhvers konar þrepaskiptingu á veiðigjöldunum. En það er ástæða til að spyrja hvort væri hægt með einhverjum hætti að laga þá galla í kerfinu sem valda því að stærri fyrirtækin séu með eitthvað meira en rekstrarhagræðingu sem geri þeim kleift að stækka umfram minni fyrirtækin.

Ég velti því fyrir mér, þar sem hv. þingmaður er með mjög langa reynslu af sjómennsku, hvort hann geti bent á einhver dæmi þess, ekki endilega í fiskveiðistjórnarkerfinu sem slíku — en jafnvel þar — heldur annars staðar líka í rekstri útgerða þar sem eru einhverjir þættir sem valda því að þessi misskipting er til staðar. Ég held að með réttu væri kannski eðlilegra að fara ekki út í einhvers konar þrepaskiptingu og að fyrirtæki borguðu (Forseti hringir.) bara jafn mikið fyrir hvert kíló af veiddum fiski. En auðvitað eru slíkar hugmyndir jákvæðar ef maður gengur út frá því að ekki sé hægt að laga þetta með öðrum hætti.