149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:48]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Rétt í upphafi vil ég þakka hv. þingmanni fyrir þá skýringu sem hún kom með í upphafi máls síns. Ég met hana mikils. Ég verð að viðurkenna að ég er pínulítið ringlaður að hlusta á annars ágæta ræðu hv. þingmanns sem mér finnst hafa mjög athyglisverðar hugmyndir í sjávarútvegsmálum. Það var gaman að hlusta á hana ræða um þær þó að ég sé ekki endilega alltaf sammála.

En af því að ég hef ekki skilið það öðruvísi en svo að hér hafi margir hv. þingmenn í það minnsta rætt um þessa frægu breytingartillögu minni hlutans við þetta frumvarp sem svo að að sjálfsögðu sé ekki verið að ræða um útboð. Mér fannst hv. þingmaður vera að tala um að í það minnsta ætti að bjóða út umframaflann, um tíma fannst mér ég vera að hlusta á hann tala um mál sem hann er með, ef ég man rétt, með í gangi.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa kvartað yfir því, og sumir gengið svo langt að láta eins og við stjórnarliðar skiljum ekki alveg þann málflutning sem fram hefur farið hjá stjórnarandstæðingum og séum vísvitandi að reyna að villa um fyrir eða snúa út úr. Þá eru nú reyndar margir helstu fjölmiðlar landsins með okkur í liði í því.

Ég held að þessi ræða skýri af hverju við eigum sum hver erfitt með að skilja hvað felst nákvæmlega í umræddri tillögu. Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að hér hafi menn einfaldlega verið að ræða útboð, uppboðsleið á fiskveiðiheimildum, aflaheimildum, sem ég hef svo aftur heyrt marga aðra stjórnarandstæðinga ræða um að sé ekki það sem felst í tillögunni.

Mig langar einfaldlega að spyrja hv. þingmann: Snýst tillagan um útboð eins og hv. þingmaður var að lýsa í máli sínu hér rétt áðan?