Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var nú þannig að mig minnir að það hafi verið á árinu 2012, þá vorum við í ríkisstjórn saman, Samfylkingin og Vinstri græn, og smíðuðum fjárfestingaráætlun. Við vorum að koma okkur upp úr kreppunni og höfðum náð að spyrna okkur í botninn og gátum planað til framtíðar. Þá horfðum við einmitt á veiðigjöldin, sem voru almennileg frá árinu 2012, og settum upp fjárfestingaráætlun. Hún tók til allra landshluta. Stór hluti veiðigjaldsins átti að fara í að styrkja sóknaráætlun landshluta og fara þá annaðhvort í menningartengd verkefni, atvinnuuppbyggingu eða fjárfestingar í landshlutanum. En það átti líka að fara í uppbyggingu í Reykjavík; allir landshlutar áttu auðvitað að njóta. Það er hugmyndin með (Forseti hringir.) tillögu okkar því að um er að ræða sameign þjóðarinnar þannig að öll sveitarfélög á landinu eiga að fá að njóta.