149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Þetta er náttúrlega, eins og þingmaðurinn kom inn á, mjög erfitt fyrir sveitarfélög. Það eru svo stórar upphæðir sem oft eru í gangi. En þessi nálgun, sírópsaðferðin eins og hann kallar hana, er eitthvað sem mér fyndist vera góð hugmynd til að hægja á. Ég hafði samband við Byggðastofnun og þessi vinna fór aldrei af stað. Menn sáu ekkert færi á að halda þessu áfram þannig að ég hvet hann til að ýta þessu að hæstv. sjávarútvegsráðherra, að koma þessu aftur á fót.

Seinni spurning mín, sem ég var með í andsvari áðan, lýtur að áhyggjum mínum og margra annarra af meðalstórum útgerðum. Í kjördæmi hv. þingmanns í Grindavík eru veiðigjöld á síðasta ári um 83% af hagnaði. (Forseti hringir.) Það er bara staðreynd. Og á Snæfellsnesi 74% og á Vestfjörðum. Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af þessu og þurfum við ekki að grípa þarna inn í?