149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:10]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson talaði um leikrit. Hann orðaði hugsanir mínar hér í gær, þegar ég var að hlusta á ræður 2. minni hluta atvinnuveganefndar um þær tillögur, að þetta væri hálfgert leikrit og mér datt í hug leikrit sem flutt var í fyrra í Reykjavík sem hét Sýningin sem klikkaði. Hún fjallaði um leikrit þar sem allt fór úrskeiðis, handritið var ekki nógu skýrt, leikararnir kunnu ekki textann sinn, leikmunirnir voru illa smíðaðir og úr varð einhver farsi.

Ég ætla að halda mig við mitt handrit, því að öll erum við í ákveðnu leikriti, enda Framsóknarmaður. Ég held að það sé alveg rétt, eins og þingmönnum Viðreisnar verður oft tíðrætt um, að það séu allir Framsóknarmenn í þessu stjórnarsamstarfi. Ég held að öll séum við Framsóknarmenn að upplagi. Svo koma fram mismunandi fæðingargallar. [Hlátur í þingsal.]

Virðulegi forseti. Hér er til 2. umr. frumvarp um veiðigjald sem flutt var í haust og hefur verið til umræðu í atvinnuveganefnd. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný heildarlög um veiðigjald. Gildandi lög eru frá 2012. Þeim hefur verið breytt nokkrum sinnum síðan og hafa fleiri aðferðir en ein verið nýttar við að ákveða veiðigjald. Það frumvarp sem liggur nú frammi byggist á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að endurskoðun laga um veiðigjöld þurfi að hafa það að markmiði að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu fyrirtækjanna.

Með þessum breytingum er verið að gera reiknistofn veiðigjaldsins skiljanlegri og gegnsærri. Frumvarpið hefur fengið góða umfjöllun og var mörgum umsagnaraðilum boðið að koma fyrir nefndina og tala sínu máli. Á fimmta tug umsagna skilaði sér inn í nefndina. Nokkur umræða hefur verið síðustu ár um álagningu veiðigjalda, ekki síst vegna mikillar hækkunar þeirra á fiskveiðiárinu 2016/2017. Margir vilja kalla þetta landsbyggðarskatt og hafa bent er á að þetta sé virkileg blóðtaka fyrir byggðarlög og jafnvel fjórðunga. Veiðigjöldin margfölduðust á síðasta ári og eru þegar til útgerðarfyrirtæki sem hafa gefist upp og nokkur eru að hugsa sér til hreyfings. Sú reikniregla sem viðgekkst kemur illa niður í því árferði sem núna er hjá botnfisksfyrirtækjunum. Reiknireglan miðast við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja fyrir tveimur árum og veiðigjöld þessa fiskveiðiárs eru því tengd afkomu greinarinnar 2015 sem var verulega betri en afkoma síðasta árs. Því veldur styrking krónunnar og lækkun á hráefnisverði.

Lítil og meðalstór útgerðarfyrirtæki eiga mörg í verulegum erfiðleikum. Þarna erum við ekki einungis að tala um að einstökum byggðarlögum blæði heldur fjórðungum. Víða um landið eru einungis lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki sem eru oft stærsti atvinnuvegurinn. Því er mikið í húfi. Okkur tekst ekki á skömmum tíma að byggja upp eða styrkja aðrar atvinnugreinar til að mæta þeim skelli sem gæti orðið ef þessi stoð yrði skorin niður.

Samþjöppun fyrirtækja — viljum við sjá eitt stórt fyrirtæki, sem hefur enga tengingu við samfélagið, reka allan sjávarútveginn í landinu? Það held ég ekki og þetta er ekki sá veruleiki sem fólk vill búa við. Samkeppnishæfni minni útgerða í fjærstu byggðum frá markaði er mjög takmörkuð. Það má t.d. segja og benda á að fyrirtæki sem búa fjærst frá markaði eru að greiða um 20 kr. á hvert kíló fyrir flutning á markað. Hvernig haldið þið að þetta fari þegar á að fara að keppa á markaðsuppboði fyrir kvóta?

Hv. þm. Pawel Bartoszek talaði í gær um að skilvirkur markaður skilaði sér alltaf í hagkvæmni, það væri eðli hans, í átt að hagkvæmni. Og hvernig haldið þið að þetta líti út þegar þetta verður komið og hvernig liti landakortið út og hvar væru þá fyrirtækin? Ég held að það sé mjög einfalt, það yrði bara einn stór blettur á suðvesturhorninu, öll fyrirtækin yrðu þar. Fyrirtæki í sjávarútvegi geta ekki mótmælt því, og hafa ekki gert, að greiða afgjald af auðlindinni, enda hreyfðu þau ekki mótmælum þegar vel gekk. En gjaldið þarf að vera sanngjarnt og taka mið af afkomu nær í tíma og af fleiri þáttum í rekstri. Þjóðin græðir ekki á afgjöldum af auðlindinni ef það kostar okkur rótgróin fyrirtæki. Við höfum viðurkennt að fiskveiðar og vinnsla séu mikilvægar atvinnugreinar út frá byggðasjónarmiði og vægi þeirra í atvinnulífi einstakra byggðarlaga getur verið mjög mikið. Fiskvinnslufyrirtæki eru í mismunandi aðstæðum til að standa í samkeppni sem eru erlendir markaðir og í samantekt Byggðastofnunar, um áhrif núverandi veiðigjalda, er tekið fram að sjávarútvegsfyrirtæki standi misvel og að rekstrarskilyrðin séu misjöfn. Í þeim tilfellum þar sem veiðigjöldin eru íþyngjandi og koma jafnvel ofan á erfið rekstrarskilyrði þurfa fyrirtækin að bregðast við með því að hagræða í rekstri.

Hvað er þá til ráða? Selja og hætta. Í einhverjum tilfellum hefur þetta þýtt sölu veiðiheimilda eða hreinlega fyrirtækja og oft er þetta mjög erfitt í sjávarútvegsbyggðum.

Virðulegi forseti. Veiðigjaldsfrumvarpið er nú til 2. umr. og til að bregðast við þeirri gagnrýni að núgildandi frumvarp gagnist sjávarútvegsfyrirtækjum vil ég taka fram að afkoman í þeim geira hefur lækkað verulega á milli ára og gildandi veiðigjöld eru tekin af hagnaði fyrirtækja fyrir tveimur árum. Með þessu frumvarpi er horft til næmni í breytingum á afkomu og til þess að nálgast hlutina betur í tíma. Þá er einungis verið að horfa til veiða og horft til afkomu á komandi veiðigjaldaári. Mér finnst skipta máli að horft sé til veiða vegna þess að við erum að horfa á það að taka gjald fyrir auðlindina, fyrir það að fara og sækja fiskinn í sjónum — ekki hvort verið er að fjárfesta í arðbærum fyrirtækjum og fá hagnað sinn út úr því eins og svo mörg stór sjávarútvegsfyrirtæki eru að gera. Það er kannski önnur umræða og annað afgjald. Það er eðlilegt að veiðigjöldin endurspegli hlutfall af hagnaði sem næst þeim tíma sem þau eru lögð á. Einnig er horft til þess að stjórnsýslu veiðigjalds verði breytt og dregið verði úr töf við meðferð upplýsinga. Horfið verði frá því að byggja útreikninga gjaldsins á Hagtíðindum og þess í stað verði einvörðungu byggt á gögnum úr skattframtölum eigenda fiskiskipa, auk skýrslna til Fiskistofu um afla og verðmæti.

Meiri hluti atvinnuveganefndar leggur til nokkrar breytingartillögur og snúa þær helst að afslættinum til að mæta minni útgerðarflokkum og millistórum. Það er í þá veru að frítekjumark nemi 40% af fyrstu 6 millj. kr. álagningu hvers árs og það nýtist þá mest minnstu útgerðunum hlutfallslega en myndi lækka þegar ofar drægi, eðlilega. Að mati meiri hlutans þarf að styrkja frítekjumarkið enn frekar og er með þessari breytingartillögu sérstaklega brugðist við erfiðri rekstrarstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og líka horft á byggðasjónarmið. Minni útgerðir eru mun háðari afkomusveiflum og hefur þetta leitt til samþjöppunar og fækkunar starfa og byggðaröskunar. Samkvæmt útreikningum sem gerðir hafa verið væri hámarksafslætti náð í 500 tonnum og líklega um 700 aðilar sem njóta þess. Einstaka hámarksafsláttur er hækkaður úr 1,5 millj. kr. frá gildandi frumvarpi í 2,4.

Í tillögum meiri hlutans er talað um að nytjastofnar sem hafa minna aflaverðmæti en 100 millj. kr. samkvæmt vegnu meðaltali næstliðinna þriggja ára myndi ekki stofn til veiðigjalds. Telur meiri hlutinn að veiðigjald geti haft áhrif á hvatann til að sækja slíkar tegundir. Tegundir sem geta fallið hér undir eru blálanga, sandkoli og skrápflúra. Þetta ætti að koma í veg fyrir brottkast, auk þess sem það ætti að vera hvati til að koma þessum tegundum á markað.

Virðulegi forseti. Hér eru tillögur meiri hlutans sem hafa hlotið mikla umræðu í nefnd og mikið samráð, bæði við þá sem starfa í greininni og aðra sem hafa sent inn umsagnir, auk þess sem fulltrúar minni hlutans hafa setið alla þessa fundi. Við höfum fengið fjölda gesta. Ráðherrann hefur haldið kynningarfundi um allt land svo að allt tal um að verið sé að troða málinu í gegn með ofbeldi er hreinlega rangt.

Hér liggur fyrir breytingartillaga 2. minni hluta sem lögð var fram á svörtum föstudegi, enda er hér um að ræða snöggsoðið útsölufrumvarp. Því fylgir ekki greinargerð með frekari útfærslum á afleiðingum frumvarpsins. Í 93 orðum á að umbylta fiskveiðistjórnarkerfinu sem er umræða sem á heima í öðru frumvarpi og á öðrum stað en ég hræðist það ekki að taka þá umræðu og skal mæta í hana þegar til hennar verður boðað.

Auk þess hefur ekkert samráð eða samtal um þessar tillögur verið í nefndinni og ég sakna þess. Því lengur sem hún er rædd kemur alltaf betri útskýring á henni. Við eigum að vera hugrökk og taka þessa umræðu, bara ekki undir þessum lið.

Það er augljóst af breytingartillögu 2. minni hluta að þau hafa hvorki verið að fylgjast með umræðunni né heyrt varnaðarorð þeirra sem komu fyrir nefndina. Ég man ekki eftir neinum umsagnaraðila sem fer í átt að þessari tillögu.

Ég ætla ekki að hafa þetta meira hér því að margt hefur verið sagt, margt gott og margt misjafnt, en umræðan er góð og vona ég að þetta nái hinni bestu niðurstöðu.