149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:10]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Já, við ræðum veiðigjöldin. Það er ekki allt neikvætt, sannarlega ekki, sem við höfum verið að vinna að í atvinnuveganefnd. Við erum búin að fá marga gesti, margar umsagnir, og til margs hefur verið tekið tillit.

En það er annað sem varð þess valdandi að ég persónulega, fyrir hönd flokks míns, Flokks fólksins, hef hreinlega ekki getað kvittað upp á þetta frumvarp af heilum hug, því miður, og hefði gjarnan viljað, eins og þegar hefur komið fram, að við hefðum gefið okkur lengri tíma, þrátt fyrir að í vor hafi átt á leifturhraða að keyra það í gegn. En var tekið tillit til þess að færa það fram á haustið til þess að við gætum gefið okkur betri tíma til að fara yfir málið. Heildstætt mat sem nýtist öllum, eitthvað sem væri ekki bara klastur og plástur heldur nokkuð sem við gætum verið sátt við, öll. Það er náttúrlega aldrei hægt að gera öllum til geðs en a.m.k. er leitast við af fremsta megni að gera það.

Við og hv. formaður atvinnuveganefndar höfum átt góðar stundir í vetur þar sem við höfum talað við gesti og tekið á móti gestum. Ég hef ekki getað séð betur en að nefndin okkar í heildina hafi verið afskaplega dugleg, bæði varðandi fyrirspurnir og annað. Við höfum viljað leggja okkur fram.

En það er skortur á ákveðnum þáttum þarna inni. Kannski er það bara vanþekking mín á því að vera pólitíkus. Ég vil náttúrlega helst að allir séu ein fjölskylda og að við getum komist að sameiginlegri, frábærri niðurstöðu, öll sem eitt. En í þessu tilviki, þegar við ræðum veiðigjöldin, verðum að átta okkur á því að við erum að tala um grundvallarstarfsgrein þjóðarinnar. Við eigum náttúrlega aðra risagrein sem kom til okkar óvænt, sem betur fer, sem er ferðamannaiðnaðurinn okkar. En það sem við horfum upp á núna í sambandi við veiðigjöldin — ég ætla að tiltaka það sem mér hefur þótt jákvætt. Það er jákvætt að við skulum t.d. vera að reyna að færa þetta nær í tíma, að við reiknum út veiðigjöldin nær í tíma en áður var þegar liðu allt að tvö ár á milli, afkomuárið var kannski tveimur árum eldra en þegar kom að því að slengja veiðigjaldinu á. Ýmislegt getur gerst á þeim tíma.

En þarna hefði ég viljað segja: Það má gera betur vegna þess að í þarnæsta túr á eftir, t.d. hjá stórútgerðinni þegar um frystitogara er að ræða, er búið að gera túrinn upp. Það er bara algerlega búið að gera upp aflaverðmæti þess túrs. Ætli það sé ekki um tveimur mánuðum eftir að veiðiferðin hófst, eitthvað þa um bil.

Okkur væri í lófa lagið að færa útreikninginn jafnvel enn þá nær en nú er gert. Ég býst við að það verði í framtíðinni því að við viljum vera tæknivædd og nota tölvurnar svolítið. Það er eitt.

Svo erum við líka að tala um persónuafsláttinn, að hækka hann. Mikið hefur verið lagt upp úr því að koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir. Verið hefur sterkur vilji fyrir því í atvinnuveganefnd. Frumvarpið litast af því að ýmsu leyti. En samt sem áður verður þetta eins og oft vill verða, eins og vinsælt er, sérstaklega þegar kemur að því að reikna út afkomu greina og afkomu launa og tengingu við eitt og annað, að notast er við þessi frábæru meðaltöl. Nú skiptir í rauninni engu máli hvort um er að ræða risaútgerð sem veltir milljörðum og tekur á móti milljörðum út úr auðlindinni á hverju einasta ári í arðgreiðslur. Hún fær alveg nákvæmlega sama persónuafslátt og litlar útgerðir sem berjast í bökkum. Einhvern veginn hlýtur að vera möguleiki — ég veit ekki betur sem öryrki en að ekki sé vandamál að tekjutengja mig við hvað sem er. Maður er skertur í bak og fyrir og það er ekkert vandamál. En þegar kemur að þessu efni er allt í einu farið að veifa einhverju jafnræði. Það finnst mér ekki eiga við í þessu tilviki.

Við tölum um litlu og meðalstóru útgerðirnar okkar. Við tölum um landsbyggðina og gjarnan höfum við í atvinnuveganefnd sagt að við horfum á málin með svokölluðum landsbyggðargleraugum. Við viljum virða litlu byggðirnar á landsbyggðinni. Við viljum koma til móts við þær. En hver er svo reyndin? Jú, við erum búin að setja þetta inn í frumvarpið núna sem nýtist öllum, hvort sem þeir eru litlir eða stórir, en í rauninni lyftir það kannski frekar þeim litlu.

Við ætlum að lækka veiðigjöldin um 4,3 milljarða. Hverjum nýtist það best? Þeim stóru. Á kostnað hverra? Þeirra sem síst skyldi.

Hvers vegna skyldum við lækka veiðigjöldin og hvers vegna skyldum við segja það blákalt hér að við séum ekkert að lækka veiðigjöldin? Af því að þegar við reiknum það seinna, af því að við gerum þetta svona og svona, hagstætt fyrir excel-skjalið, og af því við erum að afkomutengja, muni þetta náttúrlega verða miklu betra og jafnara á kúrfunni. Afkomutengingin hlýtur stundum að skila meira og stundum minna. Svoleiðis á það jú að vera.

Við eigum að afkomutengja hverja útgerð fyrir sig, ekki bara alla útgerðina í einum pakka. Það er alveg stórmerkilegt. Það er eiginlega stærsti pósturinn sem ég hafði út á að setja þegar við vorum að vinna að þessu: Hvers vegna í veröldinni tökum við alla, stóra sem smáa, ríka sem fátæka, inn í greinina okkar, þessa stórkostlegu grein sem við þurfum svo mikið á að halda? Af hverju pökkum við þeim öllum í sama pakkann og deilum svo bara í með fjöldanum? Sama gamla, góða meðaltalið?

Við tölum líka um auðlindaákvæði stjórnarskrár. Hvað getum við gert við þessa auðlind okkar til að tryggja frá A til Ö að það sé yfir allan vafa hafið að það séum við, þjóðin, fólkið í landinu, sem eigum sameiginlega þessa auðlind? Hvað getum við gert? Jú, við erum nánast öll, held ég, sammála um að virða vilja þjóðarinnar. Og eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á áðan viljum við fá þetta inn í stjórnarskrá. Þrátt fyrir að við eigum 1. gr. laga um fiskveiðar, sem segir til um að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar eigum við líka aðra grein sem er eignarréttarákvæði stjórnarskrár, sem útgerðin er nú byrjuð að spila á. Þeir eru í rauninni að berjast við að „hefða“ sér eign yfir auðlindinni okkar á meðan við sitjum hér steinsofandi og látum það gerast.

Það er í mörg horn að líta. Þess vegna hefði verið afskaplega farsælt ef við hefðum virkilega getað tekið utan um veiðigjöldin okkar núna, sett þetta í stórt samhengi, unnið að þessu saman og tekið svo mikið meira tillit — jú, við tókum mikið tillit og reyndum að laga, breyta og bæta. En það sem kom mér einna mest á óvart var að allt í einu var frumvarpið tilbúið og ég fattaði að ég hafði í raun ekkert um það að segja, ekkert nema þegar ég lagði til eitt og annað í fyrirspurnum mínum, en svo var frumvarpið allt í einu bara tilbúið.

Ég spurði í atvinnuveganefnd: Er það svo að þegar það er stjórnarmeirihluti skipti engu máli hvað stjórnarminnihlutinn hefur fram að færa? Þið farið bara ykkar fram og við kyngjum því? — Bara h... kj... og vertu góður? Svarið er einfalt: Já, það er bara þannig. Það er afskaplega leiðinlegt fyrir ykkur að vera í stjórnarandstöðu.

Við höfum lítið að segja. En við getum þó a.m.k. fylgt sannfæringu okkar af öllu hjarta. Ég vil alls ekki gera lítið úr því góða starfi sem verið er að vinna og ég vil alls ekki reyna að skemma fyrir litlum og smáum útgerðum. Ég vil frekar að við hefðum fest 48 daga fyrir smábátana okkar eins og Landssamband smábátaeigenda var að biðja um. Ég vil frekar gera veg þeirra miklu meiri. Ég vildi frekar byggja undir byggðirnar, litlu bæina eins og þann sem ég kem frá, litla Ólafsfjörð, sem er hreinlega að fjara út vegna þess að í stað þess að eiga þarna fullt af frystitogurum og það sé iðandi líf niðri við bryggju þar sem voru frystihús og salthús, þá gengur ekki nokkur maður þar um götur lengur. Þeir sem hefðu verið að „digga um“ á trillunum sínum bíða núna einhvers staðar uppi á elliheimili eftir því að vera bornir út í boxi þótt þeir séu með fulla heilsu og vilja til þess að fara út á trillunni sinni og skaka á færi.

En við erum búin að búa til svo einkennilegan og mannfjandsamlegan ramma utan um litlu byggðirnar okkar og sjávarplássin að það er sárara en tárum taki að þurfa að horfa upp á það. Hugsið ykkur staði eins og Ólafsfjörð, 1.340 manns bjuggu þar þegar ég flutti þaðan fyrir 20 árum síðan. Þar búa innan við 800 einstaklingar í dag. Hvers vegna? Hvar er allt lífið? Hvar er allt frelsið? Hvar er allt atvinnufrelsi stjórnarskrárinnar núna? Hvers vegna erum við búin að búa til svona andstyggilegt kerfi?

Ég segi númer eitt, tvö og þrjú: Veiðigjöld eiga að vera sanngjörn. Og hvað er sanngjarnt? Það hlýtur að vera sanngjarnara ef lagt er meira á þá sem hafa efni á að borga en hina sem eiga ekki fyrir því. Hvort sem það er jafnræði eða ekki verðum við, og það er á okkar valdi, að reyna að miðla því þannig að það komi sem sanngjarnast niður á útgerðunum, hlutfallslega, miðað við getu, miðað við stærð, miðað við efnahag.

Það er svo fyndið að hlusta á allan þennan lobbýisma. Við fáum alls konar fólki inn, hver hugsar um sig eins og gengur. Það eru svoleiðis mótsagnirnar að maður veit ekki hvort maður er að koma eða fara, virðulegi forseti.

En það er samt ánægjulegt að heilinn fær nú aldeilis að starfa þegar maður þarf að „bústa“ þessu öllu saman og deila í meðaltalið til að reyna að fá eitthvað þokkalega hagkvæmt út.

Ósk mín var sú að við gætum staðið miklu betur að því að afkomutengja hverja útgerð fyrir sig, hjálpa þeim virkilega sem á þyrftu að halda og ekki færa þá upp til hinna sem hafa í sjálfu sér ekkert með það að gera. Ég vona að þegar við tökum þetta mál upp aftur, því að það verður örugglega skammt stórra högga á milli ef ég þekki þetta rétt, munum við virkilega gera það með stæl og halda áfram að feta okkur í rétta átt. Því að þetta frumvarp er, eins og ég segi, um margt skref í rétta átt að öllu öðru leyti en því að veiðigjöldin eru lækkuð um 4,3 milljarða út af þessari stórfurðulegu afkomutengingu sem ég tel að ekki hefði átt að vera eins og hún er heldur allt öðruvísi. Ég ætla ekki að fara í það aftur.

En þessum peningum finnst mér ekki forgangsraðað rétt þegar ég horfi upp á að hér flæða milljarðar á milljarða ofan í arðgreiðslur út úr sjávarauðlindinni og þegar maður veit hvernig stórútgerðargreifar og sægreifar hafa haft það, margir hverjir, þegar við sjáum keyptar upp heilu og hálfu íbúagöturnar, blokkirnar, verslunarmiðstöðvar og hvaðeina, og maður veit að það er fyrir fjármagn sem tekið er út úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, sem jafnvel stórútgerðin kvartar nú undan að sé allt of dýr, það séu bara hækkandi veiðigjöld og þeir séu alveg hreint að kafna undan þessu öllu saman.

Þá segi ég bara þetta: Áfram, áfram, flottu sægreifar og sjávarútvegsfyrirtæki, haldið áfram að vera dugleg. Hér erum við. En við munum vonandi afkomutengja þetta allt öðruvísi næst. Ef hv. formaður atvinnuveganefndar heldur áfram að berjast með landsbyggðargleraugun á nefinu, eigum við eftir að gera betur. Það er mín sannfæring, mín trú. Þannig að ég segi bara: (LRM: Upp með gleraugun.) Upp með gleraugun.