149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:44]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst þegar enginn vilji er til sátta og þegar það er, væri hægt að segja, einbeittur brotavilji til að misskilja tillögu okkar og ekki hlusta á það sem við erum að segja. Það felst ekki neitt annað í okkar tillögu en bara tímabundnir samningar. Engin breyting, meira að segja á núverandi gjaldtökukerfi í rauninni. Nei, engin breyting. Það er eins og menn vilji ekki hlusta, og það er bara ásetningur í því, vilja ekki ná sátt og það er út af einhverju.

Það er ágætt að fá það á hreint og það væri líka ágætt að fá það á hreint hvaða stjórnarmál eiga að fara eftir stjórnarsáttmálanum um aukið samráð, sáttaferli, samtal við stjórnarandstöðuna, og hvaða stjórnarmál eru ekki tæk í samráðsferli.

Ég ítreka enn og aftur: Það er stórkostlegt tækifæri fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra og fyrir ríkisstjórnina að ná samkomulagi og sátt þar sem allir aðilar þurfa að gefa eitthvað eftir. En það er þráður þarna og ég er enn þá á því, hvort sem menn vilja kalla einhverja Pollýönnu í því eða ekki, að við getum náð sátt um þessa gríðarlega mikilvægu atvinnugrein. Hún þarf á því að halda og samfélagið þarf á því að halda.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra annarrar spurningar og vonast til þess að fá svar. Í umræðunum hefur komið fram af hálfu Sjálfstæðisflokksins að hann lítur á þetta sem ótímabundin veiðiréttindi. Það var alveg skýrt og kom fram ítrekað af hálfu Sjálfstæðismanna. Af hálfu Vinstri grænna og þá forsætisráðherra fyrst og fremst, sem var sú kannski sem talaði skýrast af þeirra hálfu, kom alveg skýrt fram að hún horfði á þetta sem tímabundin réttindi. Treysti sér ekki til að segja hvort það væri til eins árs, þriggja ára eða fimm ára.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég er að kalla málið aftur inn til nefndar. Mér þætti gott ef sjávarútvegsráðherra gæti útskýrt þetta fyrir mér, hvort hann horfi á þetta sem frumvarp í átt að ótímabundnum réttindum, endalausum veiðiréttindum, eða að það sé hægt að innkalla allt bara í einu vetfangi. Við því vil ég vara. Ég vil vara við þeirri kúvendingu sem hægt væri að setja fram með þeim hætti.

Spurningin er þessi: Horfir sjávarútvegsráðherra á þetta (Forseti hringir.) sem ótímabundin réttindi eins og talsmenn Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) eða deilir hann skoðun forsætisráðherra um að þetta séu að vissu leyti tímabundin veiðiréttindi?