149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmenn hljóti að átta sig á því hvað það er sérkennilegt sjónarmið hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að forsætisnefnd eigi með einhverjum hætti að hafa afskipti af því hvernig menn svara spurningum.

Hér hafa menn tækifæri til að bera fram spurningar. Þeir sem spurningum er beint til, ráðherrar eða þingmenn, svara auðvitað eftir bestu samvisku og bestu getu. Menn kunna að vera óánægðir eða ánægðir með þau svör en svörin koma hér fram í heyranda hljóði og menn bera pólitíska ábyrgð á þeim yfirlýsingum sem þeir gefa.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir getur haft áhrif á ýmsa þætti sem gerast í þinginu en það er fulllangt gengið að ætlast til þess að forsætisnefnd grípi inn í til að stýra því nákvæmlega hvernig menn svara spurningum sem hún varpar fram í þinginu.