149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2018 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

341. mál
[23:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2018. Í ákvörðuninni er mælt fyrir um að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/61/ESB um ráðstafanir til að lækka kostnað við uppbyggingu á háhraða rafrænum fjarskiptanetum verði felld inn í EES-samninginn

Markmið tilskipunar 2014/61 er að greiða fyrir uppbyggingu fjarskiptainnviða, fyrst og fremst lagningu ljósleiðara, með því að stuðla að auknum samlegðaráhrifum við samnýtingu á fjarskipta- og veituframkvæmdum. Aðdragandann að setningu tilskipunarinnar má rekja til fjarskiptaáætlunar ESB þar sem sett eru fram metnaðarfull markmið um aðgang almennings að öflugri háhraðanetsþjónustu fyrir árið 2020.

Í tilskipun er mælt fyrir um almennan rétt fjarskipta- og veitufyrirtækja til að bjóða aðgang að innviðum þeirra og skyldu þeirra til að koma til móts við sanngjarnar beiðnir um aðgang í því skyni að byggja upp háhraða fjarskiptakerfi.

Öll veitufyrirtæki sem vinna beint eða óbeint við jarðvegsframkvæmdir sem að hluta eða í heild eru fjármagnaðar með opinberu fé skulu verða við sanngjörnum beiðnum um samhæfingu framkvæmdar í því skyni að byggja upp þætti háhraða fjarskiptanets samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar. Allar nýjar íbúðabyggingar, þar á meðal sameignir, skulu útbúnar innanhússlögnum sem geta borið háhraða netmerki að nettengipunkti. Öll nýbyggð fjölbýlishús skulu útbúin samtengingarpunkti sem skal vera aðgengilegur fjarskiptaþjónustuveitendum.

Jafnframt er í tilskipuninni kveðið á um að hver sá sem rekur almennt fjarskiptanet hafi rétt á að byggja eigið net á eigin kostnað og einnig að tengjast fyrirliggjandi innanhússlögnum með það í huga að byggja upp háhraðanet ef nýlögn innanhússlagna er tæknilega ómöguleg eða óhagkvæm. Aðildarríkin skulu skilgreina úrskurðaraðila vegna ágreiningsmála um aðgang og þá ber aðildarríkjunum að skilgreina svokallaðan innviðagagnagrunn þar sem nálgast má upplýsingar um m.a. fyrirliggjandi fjarskipta- og veitumannvirki sem og fyrirhugaðar veituframkvæmdir.

Innleiðing tilskipunarinnar mun hafa í för með sér bæði beinan og óbeinan kostnað fyrir ríkið, sveitarfélög, veitufyrirtæki og jafnvel Vegagerðina. Beinn kostnaður við innleiðingu tilskipunarinnar felst í því að skilgreina þarf eftirlitsstjórnvald sem geti sinnt þeim verkefnunum sem tilskipunin kveður á um, og búa þarf til innviðagagnagrunn og veita þjónustu honum tengda. Póst- og fjarskiptastofnun áætlar í því samhengi að stofnunin muni þurfa eitt til tvö starfsgildi til þess að sinna þessum verkefnum, auk aukinna fjármuna til gagnagrunnsgerðar. Hvað stofnkostnað varðar fer fjárhæðin að miklu leyti eftir því hvort og með hvaða hætti verður heimilað að samnýta fyrirliggjandi upplýsingar um innviði sem þegar eru til og eru á forræði fjarskipta- og veitufyrirtækja. Ef samnýting fyrirliggjandi gagnagrunna verður heimiluð má gera ráð fyrir að stofnkostnaður verði um 20 milljónir og aukinn rekstrarkostnaður vegna fjölgunar starfsgilda og viðvarandi rekstrarkostnaðar gagnagrunns verði um 15–25 milljónir á ári. Ætla má að óbeinn kostnaður felist í því að fjarskipta- og veitufyrirtæki þurfi að taka tillit til samnýtingar annarra í sínum uppbyggingaráformum sem gæti aukið flækjustig og kostnað við framkvæmdir.

Að mati Póst- og fjarskiptastofnunar myndi þjóðhagslegur ávinningur þó ávallt vega upp á móti þeim óbeina kostnaði í ljósi þess að viðbótarkostnaður við ljósleiðaralögn með öðrum veituframkvæmdum er einungis um 20–25% af heildarkostnaði framkvæmdarinnar.

Virðulegur forseti. Innleiðing tilskipunar 2014/61 hér á landi, kallar á breytingar á ákvæðum fjarskiptalaga, nr. 81/2003. Fyrirhugað er að samgönguráðherra muni á yfirstandandi löggjafarþingi leggja fram slíkt frumvarp til innleiðingar á tilskipuninni. Þar sem innleiðingin kallar á lagabreytingar var ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2018 tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Samkvæmt ákvæðum þingskapalaga ber að aflétta slíkum stjórnskipulegum fyrirvara með þingsályktun og því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hæstv. utanríkismálanefndar.