149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Við í Pírötum, Samfylkingu, Viðreisn og Flokki fólksins leggjum til að þessu máli verði vísað frá. Hvað okkur Pírata varðar er það vegna þess að frumvarpið tekur ekki afstöðu til þess hvaða hlutdeild þjóðin á í þeim arði sem myndast af nýtingu auðlindarinnar og víkur raunar frá þeirri skýlausu kröfu að við tökum um það umræðu, einmitt í samráði og sátt, hvaða hlutdeild hún eigi að eiga. Þetta frumvarp svarar því ekki og setur það í uppnám.

Þetta frumvarp tekur heldur ekki á þeirri grundvallarkröfu að afnotaréttur af auðlindinni sé einskis eign nema þjóðarinnar, eins og fram kemur í nýrri stjórnarskrá.

Við leggjum því til að málinu verði vísað frá og að við vinnum að betri sátt, ekki með einhverju tómi hjali um samráð, heldur að við séum höfð með í ráðum hér, úr hvaða flokki sem við komum, við gerð þessa mikilvæga frumvarps.