149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Eftir því sem ég kemst næst munu íslensk stjórnvöld skrifa undir samning Sameinuðu þjóðanna í Marakess í Marokkó á fundi sem fram fer dagana 10. og 11. desember nk. Ég fullyrði að yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar myndi setja spurningarmerki við þann samning ef fólki stæði til boða að taka afstöðu til hans. Afleiðing þessa samnings verður að landamæri Íslands munu opnast fyrir nánast öllum íbúum jarðar sem kjósa að flytja hingað burt séð frá stöðu. Samningurinn nefnist Global Compact for Safe Orderly and Regular Migration, lauslega þýtt Alheimssamningur um örugga, skipulagða og reglubundna fólksflutninga.

Þessi samningur rammar inn þá skoðun Sameinuðu þjóðanna að æskilegt sé að fólksflutningar í heiminum séu gerðir aðgengilegir fyrir þá jarðarbúa sem þess æskja. Fljótt á litið er þarna um mannúðarmál að ræða, tilraun til að létta á þjáningu mannkyns og það væri vel ef eingöngu væri svo. En fulltrúar þjóða sem hafa kynnt sér samninginn segja hann aðför að hinum frjálsa vestræna heimi því að í samningnum felst að þeir sem hann undirrita skuli innleiða lög í heimalandi sínu sem uppfylla það sem í samningnum felst, m.a. að tjáning gegn því sem í samningnum felst skuli flokkast undir hatursorðræðu og að viðurlög verði að loka megi fjölmiðlum sem gerast sekir um að taka þátt í slíkri umræðu. Með öðrum orðum skal hér gengið gegn grundvallarmannréttindum, stjórnarskrá lýðveldisins og vegið er að grunninum, að frelsi einstaklingsins og vestrænu samfélagi.

Samningurinn hefur ekki fengið neina umfjöllun þessi tvö ár að séð verður á Alþingi, hjá stjórnvöldum eða í fjölmiðlum. Því er viðbúið að utanríkisráðherra landsins eða staðgengill hans skuldbindi okkur 10. eða 11. desember nk., eftir rúma viku, án þess að nokkur umræða hafi farið fram um samninginn hérlendis.

Það er vitað að nokkur lönd munu ekki staðfesta samninginn. Formælendur þessa samnings munu halda því fram að hann sé ekki lagalega bindandi, og það er kannski rétt í þröngum skilningi, en enginn getur mælt því mót að samningurinn er pólitískt bindandi og verður skeinuhættur löndum við lagalega túlkun ýmiss konar. Það er leitt til þess að hugsa að nú þegar við fögnum 100 ára afmæli fullveldisins skuli þingheimur og fjölmiðlar ekki sinna meira um fullveldi Íslands. Hvert málið á fætur öðru er reynt að reka í gegnum þingið eða, það sem alvarlegra er, fram hjá því í litlum sneiðum — salamí-aðferðin við framsal fullveldis. (Forseti hringir.)

Ég skora á Alþingi að ræða þennan samning sem og aðra sem á eftir munu koma. Ef satt reynist að í honum felist framsal fullveldis undir alþjóðalög eða hefting á grunngildum vestræns samfélags hljótum við að hafna undirritun slíkra samninga.