149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Um netheima flakka nú lítið kvæði sem kallast Bæn narcissistans. Það hljóðar svo, í lauslegri þýðingu minni, með leyfi forseta:

Þetta gerðist ekki.

Ef það gerðist var það ekki svo slæmt.

Ef það var slæmt er það samt ekkert stórmál.

Ef það er eitthvað mál meinti ég ekkert með því.

Og ef ég meinti eitthvað með því áttirðu það skilið.

Þessi bæn þykir lýsandi fyrir viðbrögð formanns Miðflokksins við þeim viðbjóðslegu viðhorfum sem Klausturupptökurnar upplýstu almenning um að þingmenn Miðflokksins og nú sjálfstæðir þingmenn höfðu í flimtingum á almannafæri.

Formaður Miðflokksins vill meina að sú stæka kvenfyrirlitning, þeir fötlunarfordómar og fordómar gegn samkynhneigðum sem ullu upp úr honum og nokkrum þingmönnum á bar á dögunum séu alsiða á Alþingi og því eigi alþingismenn, þá sér í lagi karlmenn á þingi, að líta í eigin barm, þetta sé spurning um menningu á þinginu.

Mér þykir þetta gróf aðför þingmannsins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að kollegum sínum hér á þingi. Ég trúi því ekki að hann segi satt og ég vil koma karlkyns kollegum mínum til varnar vegna þess að hér er um týpískan fyrirslátt að ræða, sem á ekki við rök að styðjast.

En ef það er eitthvað við menningu þingsins sem þarf að laga eru það þessi viðbrögð formannsins sem kristallast svo vel í Bæn narcissistans og er lýsandi fyrir þessa skaðlegu menningu. Því þau eru alsiða þegar upp kemst um mistök og misgjörðir alþingismanna.

Þetta gerðist ekki.

Ef það gerðist var það ekki svo slæmt.

Ef það var slæmt er það samt ekkert stórmál.

Ef það er eitthvað mál meinti ég ekkert með því.

Og ef ég meinti eitthvað með því áttirðu það skilið.

Hættum að nota þessar afsakanir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)