149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að nota þennan stutta tíma hér til að ræða um mál sem mér þykir mjög brýnt og það eru samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

Hv. umhverfis- og samgöngunefnd fékk í morgun kynningu á skýrslu sem verkefnahópur á vegum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og samgönguráðsins hafði unnið. Þetta er 43 blaðsíðna skýrsla þannig að ég ætla ekki að segjast hafa lesið hana alla. En mig langar að grípa niður í helstu atriði skýrslunnar. Þar kemur fram að hlutur höfuðborgarsvæðisins sé mjög rýr í tillögum að samgönguáætlun til 15 ára, þar sé 18% af fé til nýframkvæmda í vegakerfinu og aðeins 8% af rekstrarstuðningi almenningssamgangna.

Breytingartillögur á samgönguáætluninni gera ráð fyrir heildstæðum samgöngupakka á höfuðborgarsvæðinu, en það er það sem þessum verkefnahópi var falið að gera. Þar er talað um markvissar fjárfestingar og aðgerðir sem stuðla að breyttum ferðavenjum sem dragi úr umferðartöfum og losun gróðurhúsalofttegunda.

Í tillögum verkefnahópsins er gert er ráð fyrir að nýjum sjálfstæðum tekjustofni, svo sem veggjöldum, innviðagjöldum og hlutdeild kolefnisgjalds, verði varið í að greiða fyrir þessar framkvæmdir. Tillögurnar gera ráð fyrir að á árinu 2019 verði 600 millj. kr. varið til undirbúnings í framkvæmdina og helmingurinn komi frá ríki og helmingurinn frá sveitarfélaginu.

Mig langar að ítreka það sem ég hef oft sagt áður í þessum sal, mikilvægi þess að við vinnum með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að samgöngubótum. Ég held að fá svæði hafi farið í jafn ítarlegar greiningar á stöðunni og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa gert, að sjálfsögðu í góðu samstarfi við samgönguráðuneytið. Meðal annars var gerð úttekt á helstu gatnamótunum árið 2017 og þar kemur fram að það eru 17 gatnamót árdegis og 19 gatnamót síðdegis sem þarf að skoða alveg sérstaklega og ráðast í umbætur á.

Það þarf að bæta ljósastýringu á gatnamótum og það er t.d. mjög ódýr og árangursrík aðgerð. En það er óhjákvæmilegt að fara í framkvæmdir við að breyta ýmsum gatnamótum til að minnka umferðartafir (Forseti hringir.) og auka umferðaröryggi, jafnvel þótt markmið um aukna notkun annarra ferðamáta náist.

Og þá langar mig að lokum að ítreka það að við verðum líka að ná árangri í því að breyta ferðamáta.