149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

178. mál
[15:07]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir skýra framsögu. Ég ætla kannski að fá að hnykkja aðeins á því sem hann sagði. Það skiptir mjög miklu máli og við höfum fundið það, bæði þegar ég var í ráðuneytinu á síðasta ári en ekki síður núna þegar dýralæknarnir komu til fyrir nefndina, að það er mikið álag á þeim. Það vantar einfaldlega íslenska dýralækna. Það þarf að fara gaumgæfilega ofan í skýrsluna sem var skilað í október 2017 varðandi endurskoðun löggjafar um dýrasjúkdóma, tvímælalaust. Ég skil vel ótta þeirra við að slaka á kröfum varðandi íslenskukunnáttu. En á móti verð ég að segja að við eigum að bjóða alla þá dýralækna sem vilja koma og vinna hérna velkomna og við eigum að gera það þannig að við upplýsum hvernig íslensk lög og íslenskt regluverk virkar. Hér er verið að raungera það að Matvælastofnun geti ráðið til sín erlenda dýralækna, ekki síst í sláturtíðinni þegar álag er mikið.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að hér sé ekki verið að breyta neinu, það er enn þá opnun á að ráða erlenda dýralækna í þessi störf, og hvort hann sé ekki sammála mér líka í því að það þurfi að fara ekki bara í endurskoðun á lögum um dýrasjúkdóma með hliðsjón af skýrslunni heldur ekki síður að skoða starfsumhverfi dýralækna almennt, ekki bara íslenskra heldur þeirra sem starfa við dýralækningar hér heima.