149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

útflutningur hrossa.

179. mál
[15:47]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tók eftir að hv. þingmaður horfði ekki á mig þegar var rætt um skattahækkanir, enda veit hv. þingmaður sem er að ég er ekki feiminn við skattahækkanir, ég lít á skatta sem það sameiginlega gjald sem við greiðum fyrir samfélagsþjónustu okkar og samneysluna. Ég hef ekki endilega litið á þetta sem skattahækkun og þar greinir okkur hv. þingmann kannski á. Ég er svo sem löngu hættur að trúa því að ég hafi alltaf rétt fyrir mér heldur hef ég, eins og ég kom aðeins inn á í fyrra andsvari mínu, litið á þetta sem gjald sem kaupendur, erlendir kaupendur greiða. Það leggst með öðrum orðum ofan á söluverðið.

Ég hjó eftir að hv. þingmaður talaði um gjald á hrossaræktendur því að þarna er töluverður munur á, hvort það eru hrossaræktendur sjálfir eða erlendir kaupendur sem greiða. Talandi um hrossaræktendur sjálfa, forseti, þá er kannski ágætt að benda á að hugmyndin um hækkun eða óskin um hana kemur frá þeim sjálfum og er samþykkt á félagslegum grunni þeirra aftur og aftur í nokkur ár. Þannig að þau félagasamtök sem hrossaræktendur hafa til að fara með sinn málarekstur hafa kallað eftir þessu sjálf, án þess að ég fullyrði það, en sjaldan er það að félagasamtök kalli endilega eftir skattahækkunum á sjálf sig. Þess vegna hefur það frekar styrkt mig í þeirri trú að þetta sé ekki endilega skattahækkun á hrossaútflytjendur heldur gjald á erlenda kaupendur til að njóta þeirra gæða sem íslenski hrossastofninn er.

Það er svo aftur alveg einnar messu virði að fara út í umræðu hvort það sé rétt eða ekki og hvernig við (Forseti hringir.)eigum að hafa þetta fyrirkomulag um stofnverndarsjóð. Það er akkúrat þetta (Forseti hringir.) sem ég vildi draga fram og heyra hv. þingmann fara aðeins yfir.