149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Um þetta mál hefur verið fjallað ítarlega í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, svo vel að einhverjum sérfræðingum taldist svo til að um fáar ráðuneytisbreytingar hefði verið meira fjallað í meðförum Alþingis og er það vel. Við viljum vanda vel til verka.

Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur skilað inn nefndaráliti sem ég ætla að fara að nokkru yfir í anda þeirrar vönduðu vinnubragða sem við höfum sýnt í þessu máli. Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fjölda gesta sem ég ætla ekki að lesa alla upp og umsagnir bárust um málið nokkuð víða að.

Með tillögunni er leitað eftir stuðningi Alþingis við fyrirhugaða breytingu á fjölda og heiti ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem forsætisráðherra hyggst gera tillögu um til forseta Íslands í samræmi við 15. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Í breytingunum felst að í stað velferðarráðuneytis komi annars vegar heilbrigðisráðuneyti og hins vegar félagsmálaráðuneyti og fjölgar ráðuneytum því úr níu í tíu.

Almennt hefur nefndin fjallað um málið á fundum sínum og fyrirhugaða breytingu á skiptingu stjórnarmálefna milli ráðherra en í greinargerð með tillögunni kemur fram að markmiðið með uppskiptingu velferðarráðuneytisins er fyrst og fremst að skýra verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins og skerpa þar með hina pólitísku forystu í málaflokkum ráðuneytanna. Gert er ráð fyrir að uppskiptingin verði með sama hætti og verið hefur milli heilbrigðisráðherra og félags- og jafnréttismálaráðherra að því undanskildu að jafnréttismál flytjast til forsætisráðuneytisins.

Ég ætla, virðulegur forseti, að leyfa mér að koma með örlítið innskot í upplestur minn á nefndarálitinu því hér er talað um jafnréttismálin sem flytjist til forsætisráðuneytisins. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta, um þau mál:

„að því undanskildu að jafnréttismál, þar á meðal málefni einstaklinga með kynáttunarvanda, flytjast til forsætisráðuneytisins …“ Og svo framvegis.

Hér er gott dæmi um hve framþróunin í þessum málum er ör. Hér hafa þau sem sömdu greinargerðina, sem er vönduð og vel unnin, verið að vísa í lög um þennan málaflokk sem ber einmitt þetta heiti. Lögin eru frá árinu 2012 en eru úrelt þegar að því kemur hvaða heiti og hugtök við notum. Þess vegna erum við ekki með þetta í nefndaráliti okkar því að hér er að sjálfsögðu verið að tala um jafnréttismál almennt og jafnréttismál hinsegin fólks, ekki bara fólks með kynáttunarvanda.

Það er gaman að segja frá því, forseti, að á þingmálaskrá hæstv. ríkisstjórnar er einmitt endurskoðun á umræddum lögum sem er augljóslega vísað í í greinargerðinni.

En jafnréttismálin, svo að ég snúi mér aftur að nefndarálitinu.

Nefndin ræddi nokkuð um jafnréttismálin sem flytjast eiga til forsætisráðuneytis en í greinargerð er tekið fram að vægi þessara mála hefur aukist verulega undanfarin ár og er litið til Íslands sem fyrirmyndar hvað varðar löggjöf og þróun málaflokksins á heimsvísu. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að í ljósi þess að jafnréttismál snerti starfssvið allra ráðuneyta sé fyrirhugaður flutningur málaflokksins til forsætisráðuneytis til þess fallinn að styrkja hann. Meiri hlutinn tekur undir það og telur einnig í ljósi þess samhæfingarhlutverks sem forsætisráðuneytið fer með geti stofnun skrifstofu jafnréttismála innan forsætisráðuneytisins verið mikilvægt skref sem muni hafa jákvæð áhrif á samþættingu jafnréttismála og orðið málaflokknum til styrkingar. Hafa þarf í huga hversu víðtæk jafnréttismál eru innan Stjórnarráðsins enda snerta þau starfssvið allra ráðuneyta. Meiri hlutinn bendir á mikilvægi þess að skrifstofa jafnréttismála innan forsætisráðuneytisins vinni með heildstæðum hætti að fyrirhugaðri framtíðarstefnumótun og heildarendurskoðun á stjórnsýslu jafnréttismála í samráði við Jafnréttisstofu.

Málefni barna. Við uppskiptingu ráðuneytisins er ráðgert að embættisheiti ráðherra félagsmála breytist og verði félags- og barnamálaráðherra sem endurspeglar áform stjórnvalda um aukna áherslu á málefni barna og ungmenna. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að með þeirri breytingu sé vakin sérstök athygli á málefnum barna og það sé í eðli sínu til þess fallið að þarfir og réttindi barna verði í forgrunni þegar teknar eru ákvarðanir er varða málefni barna í ráðuneytinu.

Meðal verkefna hins nýja ráðuneytis félagsmála verður að móta stefnu Íslands, framtíðarsýn og markmið í málefnum barna. Fyrir dyrum stendur að endurskoða barnaverndarlög, félagslega umgjörð í málefnum barna og alla þjónustu við börn á landsvísu. Markmið endurskoðunarinnar er að börn verði ætíð sett í forgang í allri nálgun innan málaflokksins og íhlutun í mál þeirra verði tryggð svo fljótt sem kostur er og samfella í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Eitt af meginmarkmiðum er að tryggja samræmda framkvæmd og þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra á öllum sviðum og markvissa eftirfylgni með þeim aðgerðum. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur að með mótun stefnu Íslands í málefnum barna og aukinni áherslu á að sameina krafta þeirra sem koma að málefnum barna sé tekið markvisst skref í þá átt að styrkja velferð barna og þar með fjölskyldna þeirra.

Málefni mannvirkja. Á fundum nefndarinnar var sérstaklega fjallað um húsnæðismálin og þau áform að málefni er varða mannvirki verði flutt frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti til félagsmálaráðuneytis en þar eru fyrir húsnæðis- og húsaleigumál, málefni húsnæðis- og byggingarsamvinnufélaga, frístundabyggðar og málefni vinnumarkaðar. Fram komu sjónarmið um að mannvirkjamálin verði þannig aðskilin frá þáttum sem þau eiga mikla samleið með, svo sem skipulagsmálum, mati á umhverfisáhrifum og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og verði með þessu færð inn í ráðuneyti gjörólíkra málaflokka. Brýn þörf sé á að auka skilvirkni og einfalda framkvæmdina innan málaflokksins í heild sinni en að með þessu fyrirkomulagi verði kerfið flóknara. Bent var á að sveitarfélögin væru staðbundin stjórnvöld í skipulags- og byggingarmálum og í ljósi þess hve mikilvæg skipulags- og byggingarmál eru í stefnumörkun og stjórnsýslu sveitarfélaga hefði verið rétt að hafa samráð við þau við mótun tillögunnar. Einnig komu fram sjónarmið um að augljós rök væru fyrir þeirri skipan að málefni mannvirkja væru öll á einni hendi og enn fremur um að þau ættu betur heima í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Fyrir nefndinni kom einnig fram að í Danmörku og Svíþjóð væru skipulagsmál og húsnæðismál hjá sama ráðherra. Samlegðaráhrif og samspil væri með húsnæðismálum og innviðauppbyggingu og betur færi á að húsnæðismálin væru hjá einum ráðherra, þ.e. öll málefni er varða húsnæði og regluverk byggingariðnaðarins, þar með talið eldvarnir, slökkvilið, rafmagnseftirlit sem og markaðseftirlit. Meiri hlutinn telur að líta mætti til þess hvernig fyrirkomulagið er annars staðar á Norðurlöndum.

Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið um að tilfærsla á mannvirkjamálum til ráðherra félagsmála væri jákvætt skref í átt að því að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði til lengri tíma og eðlilegt framhald af nýlegum breytingum á lögum um húsnæðismál þar sem m.a. var lögð aukin skylda á ríki og sveitarfélög til þarfagreiningar, áætlanagerðar og langtímastefnumótunar í húsnæðismálum. Kom fram að áfram væri þó þörf á einföldun á stjórnskipulagi húsnæðismála þar sem ábyrgð á málaflokknum í heild er hjá mörgum ráðuneytum en að með þessu sé stigið skref í rétta átt. Bent var á mikilvægi þess að efla og auka samstarf allra hagaðila og sóknarfæri í að lækka byggingarkostnað. Ráðherrar húsnæðismála á Norðurlöndunum hafa samþykkt samstarfsyfirlýsingu til að samræma regluverk byggingarmála innan landanna og lækka með því byggingarkostnað. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið um að þetta sé fyrsta skref til að efla stjórnsýslu málaflokksins og styðja við langtímastefnumótun og skilvirkari framkvæmd húsnæðismála. Meiri hlutinn leggur áherslu á áframhaldandi vinnu við að styrkja samstarf og samhæfingu ráðuneytanna, m.a. í tengslum við skipulagsmál, mannvirkjagerð, eftirlit með mannvirkjum og umhverfismál.

Að þessu sögðu gerir meiri hlutinn ekki athugasemdir við fyrirhugaða uppskiptingu velferðarráðuneytisins og leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita sá sem hér stendur og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Óli Björn Kárason og Þórunn Egilsdóttir.

Virðulegur forseti. Þetta er langt og ítarlegt álit og skýrir sig sjálft þannig að ég ætla ekki að beina orðum mínum meira að því. Mig langar hins vegar að skipta um hatt og hætta að tala sem framsögumaður meirihlutaálits hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og tala sem Kolbeinn Óttarsson Proppé, hv. 6. þm. Reykv. n.

Það er nefnilega mín persónulega skoðun, forseti, að það hvernig framkvæmdarvaldið ákveður að skipa sínum málum, raða sínum ráðuneytum eða skrifstofum upp, skipta verkefnum sín á milli, sé og eigi að vera málefni framkvæmdarvaldsins en ekki endilega málefni löggjafarvaldsins.

Mér finnst það í takt við þrískiptingu ríkisvaldsins að löggjafarvaldið sé ekki sérstaklega að skipta sér af því hvernig framkvæmdarvaldið ákveður að skipa sínum málum. Þar get ég nefnt mýmörg dæmi um hvernig er með þessi mál farið víða um heim en læt það ógert því að hér er ég einungis að lýsa minni persónulegu skoðun og ætla reyndar að lýsa því yfir, forseti, að ég er að vinna að máli um einmitt þetta atriði sem ég mun þegar þar að kemur leggja fram á hv. Alþingi.

En í því ljósi finnst mér — ég ætla að leyfa mér að segja hér mína persónulegu skoðun — breytingartillaga sem 1. minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur fram í nefndaráliti sínu, og væntanlega verður mælt fyrir á eftir, allrar athygli verð og þess virði að setjast yfir og skoða, þó að hún sé ekki hluti af nefndaráliti meiri hlutans og ég viti ekki og hafi ekki rætt það á neinum formlegum fundum hver afstaðan er hvað þetta varðar. Þá er ég einungis að lýsa minni skoðun.

Mér finnst með öðrum orðum, forseti, að framkvæmdarvaldinu eigi að vera í sjálfsvald sett hvernig það hagar málum sínum, hvernig það skipuleggur sína vinnu.

Að því sögðu, svo að ég skipti aftur um hatt og gerist framsögumaður meirihlutaálits, ítreka ég það sem kom fram í lok upplesturs míns á álitinu, að við í meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerum ekki athugasemdir við fyrirhugaða uppskiptingu velferðarráðuneytisins og leggjum til að þingsályktunartillagan verði samþykkt.