149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[17:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Um hvað erum við eiginlega að tala hérna? Við erum að fjalla um skiptingu ráðuneyta. Við meðferð þessa máls í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kom fram að þingsályktunartillagan, í raun bara einn angi hennar, væri á borði nefndarinnar. Þingsályktunartillagan með allri sinni greinargerð var kannski meira til kynningar varðandi hugmyndir forsætisráðherra um hvaða verkaskiptingu hún vildi hafa. Af því að það kom skýrt fram á fyrsta fundi, þegar fulltrúar ráðuneyta komu fyrir nefndina, að þeir litu svo á að það eina sem nefndarmenn ættu að vera að íhuga væri hvort rétt væri að skipta ráðuneytum og mögulega hugleiða nöfn ráðuneytanna.

Það er alveg rétt, sem fram hefur komið hér í dag, að ágætisvinna fór fram í nefndinni. Við fengum til okkar ýmsa gesti og þá sérstaklega vegna þess að við sendum þetta mál til umsagnar, en fram kom á fyrsta fundi með fulltrúum ráðuneyta að Samtök iðnaðarins höfðu sent í tölvupósti athugasemdir sínar við það sem þau höfðu frétt út undan sér að væri mögulega á döfinni, þ.e. að færa húsnæðismál yfir til félagsmálaráðuneytis. Nefndarmenn spurðu hvort umrædd umsögn hefði verið á samráðsgátt en þá kom í ljós að málið hafði ekki farið á samráðsgátt. Þá var ákveðið að senda málið allt til umsagnar eins og eðlilegt er og komu inn fjölmargar umsagnir.

Af hverju er ég að ræða þetta hér? Af því að ég tel mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra sé meðvituð um þá umræðu sem átti sér stað af því að hún er jú að leggja þetta til og hefur fullt vald til að gera það sem hún leggur til. Ég tel hins vegar rétt að hún viti af öllum þeim varnaðarorðum sem bárust okkur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Samband íslenskra sveitarfélaga sendi t.d. umsögn sem var nokkuð harðorð, með leyfi forseta:

„Þá er óhjákvæmilegt að gera alvarlega athugasemd við að tillaga sé mótuð um þennan verkefnaflutning án samráðs við sveitarfélögin, þegar haft er í huga hve mikilvæg skipulags- og byggingarmál eru gagnvart stefnumörkun og stjórnsýsluframkvæmd sveitarfélaga. Má jafnvel leiða líkur að því að tilurð tillögunnar stangist á við Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga og þau viðmið um samráð milli stjórnsýslustiga sem Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins hefur mótað.“

Þegar kemur að Samtökum iðnaðarins þá sendu þau líka inn umsögn og komu einnig fyrir nefndina. Ég ætla að leyfa mér að vitna í þeirra umsögn, með leyfi forseta:

„Samtökin hafa bent á að málefni íbúðamarkaðar, þ.m.t. uppbygging íbúðarhúsnæðis og skipulagsmál, séu munaðarlaus málaflokkur í stjórnarráðinu í ljósi þess að húsnæðismál eru á verksviði velferðarráðuneytisins, skipulagsmál og málefni mannvirkja eru á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytis og málefni sveitarfélaga eru á forræði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Með núverandi skiptingu er hvorki yfirsýn yfir málaflokkinn í heild sinni né skilvirkni. Svo verður heldur ekki með fyrirhugaðri breytingu þar sem málefni sem tengjast íbúðarhúsnæði verða enn á forræði þriggja ráðuneyta.“

Í raun er þetta allt saman á valdi forsætisráðherra eins og fram hefur komið hér og hún getur gert það sem hún vill. Ég tel þó fulla ástæðu til þess að við íhugum þetta, að hún íhugi hvort hún eigi að fara gegn ráðleggingum þeirra sem starfa innan málaflokksins. Það var alveg ljóst að þessir aðilar höfðu gríðarmiklar áhyggjur, líka Verkfræðingafélag Íslands, af því að taka ætti þennan hluta mannvirkjanna og færa yfir í félagsmálaráðuneytið í stað þess að reyna að sameina þetta allt saman í sveitarstjórnarráðuneytinu.

Fulltrúar Mannvirkjastofnunar komu líka fyrir nefndina og þau voru jákvæðari gagnvart þessu máli vegna þess að þau töldu rétt að færa hluta yfir til félagsmálaráðuneytisins en upplýstu þó að það væri ekki þannig á Norðurlöndunum. Á Norðurlöndunum er það nefnilega þannig að eitt og sama ráðuneytið fjallar um allt er varðar mannvirki og skipulagsmál, byggingarmál, húsnæðismál. Það skiptir máli. Það skiptir máli að ekki sé verið að þvæla þessu inn í mörg ráðuneyti og það hefur verið umkvörtunarefni hér á landi hversu svifaseint kerfið er, sérstaklega þegar kemur að umhverfis- og skipulagsmálum. Þess vegna held ég að það verði að íhuga þetta mjög vel og vanda vel. Það er ekkert sem segir að það verði að færa málefni húsnæðis- og skipulagsmála yfir til félagsmálaráðuneytisins á þessum tímapunkti. Það er verið að leita heimildar eða tilkynna að skipta eigi velferðarráðuneytinu upp og ekkert mælir gegn því að hafa þetta tvö ráðuneyti nema kannski það sem kom fram í allri þessari málsmeðferð og það er kostnaðarþátturinn. Við 1. umr. kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra að kostnaðurinn við uppskiptingu og kostnaðurinn við þessa tillögu alla væri 70 milljónir. Nú hefur hins vegar komið í ljós, og kom í ljós við málsmeðferðina, að fyrir utan þessar 70 milljónir er gert ráð fyrir að kostnaðurinn við að færa jafnréttismálin inn í forsætisráðuneytið séu 200 milljónir til viðbótar, að búa til þessa sérstöku skrifstofu. Það var eitthvað sem hafði ekkert verið rætt hér í þingsal. Þá hrökk maður svolítið við af því að því hafði verið haldið fram ítrekað að þetta kostaði 70 milljónir. Þá hefur því einnig heyrst fleygt innan úr velferðarráðuneytinu, félagsmálaráðuneytishlutanum, að þar búist fólk einnig við 200 millj. kr. innspýtingu inn í málaflokkinn er varðar börn. Þá erum við komin upp í tölur sem eru 470 milljónir út af þessum uppskiptingum öllum. Það virðist því vera sem ríkisstjórnin sé að lofa sömu fjármununum mörgum sinnum án þess að gera grein fyrir því einhvers staðar í fjárlögum.

Þar vil ég staldra við og a.m.k. vekja athygli á því hér í ræðupúlti Alþingis. Aðgerð sem á að vera tiltölulega ódýr á einhverja mælikvarða, 70 milljónir, er farin að kosta 470 milljónir. Þá veltir maður því fyrir sér hvort kannski sé betra að ráðstafa þeim fjármunum í eitthvað annað. Ég geri líka athugasemdir við það að jafnréttismál til forsætisráðuneytis eigi ekki við um hvers konar jafnrétti. Jafnrétti er nefnilega ekki bara kynjajafnrétti og jafnrétti er ekki bara jafnrétti hinsegin fólks heldur er jafnrétti á öllum sviðum. Þegar jafnréttisskrifstofa kom til okkar í heimsókn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar virtust þau ekki alveg vita hvort þau myndu heyra undir hina nýju skrifstofu eða ekki, enda hafði ekkert verið rætt við þau neitt frekar en aðra, ekki frekar en Samband ísl. sveitarfélaga eða Samtök iðnaðarins eða aðra.

Maður veltir fyrir sér með jafnrétti og mannréttindi yfirleitt að áfram eru einhver mannréttindamál í dómsmálaráðuneytinu og einhver ráðuneyti er varðar tiltekna hópa verða þá í hinni nýstofnuðu skrifstofu hjá hæstv. forsætisráðherra. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta sé endilega málaflokknum til hagsbóta. Það virðist vera sem þeir gestir og þeir sem sendu inn umsagnir hafi verið ánægðir með að málefni barna skyldu fá aukið vægi og sérstaklega ætti að lyfta því. Ég verð að taka undir það að ég held að það sé bara gott að við gerum vel við þann hóp. Þó veltir maður því auðvitað fyrir sér hvort það eigi alltaf að vera að breyta heitum ráðuneyta í hvert skipti sem einhverjum dettur í hug að lyfta einstaka máli umfram annað. Það er spurning hvort það sé jafnvel bara betri bragur á því að við leyfum heitum ráðuneytanna að fá að vera í friði fyrir sérstökum hugðarefnum eða hvort við munum sjá þetta gerast reglulega við hver ráðherraskipti eða í hvert skipti sem ráðherra dettur í hug að fá nýtt áhugamál, ef svo má segja.

Það var þetta sem ég vildi segja um þetta ákveðna mál. Annars vísa ég bara í minnihlutaáliti sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson fór vel yfir.