149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Kannski greinir okkur hv. þingmann bara á um eðli þessara mála. Hv. þingmaður talar um stór mál. Ég skil það þegar verið er að ræða um fjárlög eða einhver stærri mál. Ég lít ekki á það sem sérstaklega stórt mál hvernig framkvæmdarvaldið ákveður að skipuleggja sitt starf. Ég er meira sammála systurflokki hv. þingmanns sem nú um stundir ræður ríkjum á Bretlandseyjum þar sem er minnihlutastjórn og þar var skipaður ráðherra einmanaleika án þess að það þyrfti einhverja sérstaka umræðu í þinginu, af því að hæstv. forsætisráðherra þar vildi leggja áherslu á þau mál. Það finnst mér eðlilegt. Mér finnst það ekki eðlilegt þegar sú staða er uppi að það sé kannski minnihlutastjórn. Framkvæmdarvaldið er samt framkvæmdarvald. Það þarf að sjálfsögðu meirihlutastuðning við stór mál og við að koma öllum sínum málum í gegnum þingið, en að það sé í höndum annars arms ríkisvaldsins hvernig það skipuleggur sín störf finnst mér ekki eðlilegt.