149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:00]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er vissulega rétt að það er mjög gott ef sem allra flestir eru að hugsa um þessi mál og reyna að vinna þeim brautargengi. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að menn séu þarna að einhverju marki að drepa á dreif kröftum, menn séu að búa sér til flókið skipulag, jafnvel að verkefni muni skarast, jafnvel að menn muni hafa ólíka sýn á viðfangsefnin. Þarna muni hugsanlega verða togstreita á milli þeirra sem stýra verkefnum samkvæmt þessari þingsályktunartillögu og hins vegar stýrihóps í forsætisráðuneytinu.

Ég leyfi mér að hafa áhyggjur af þessu og hefði haldið að skynsamlegt væri af hæstv. ríkisstjórn og ráðherrum hennar — þeir eru meira og minna allir, sýnist mér, komnir í þessi mál, fjögur ráðuneyti standa að baki þingsályktunartillögunni og forsætisráðherra er kominn með sinn stýrihóp — að fella þetta betur saman. Það er rétt að málin skarast og ég held að það geti orðið til trafala og jafnvel hindrað framgang nauðsynlegra mála. Við vitum hvernig það er þegar menn eru með verkefni sem eru keimlík þá vill hver ota sínum tota og reyna að ná sínu fram. Ég óttast það vegna þess að öll þessi málefni eru svo brýn að ég hefði haldið að hæstv. ráðherra og allir þeir ráðherrar sem þarna koma að ættu að setjast niður og spyrja sjálfa sig: Væri ekki rétt að smella þessu saman í eitt verðugt verkefni?