149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:02]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þetta eru sjónarmið sem hv. þingmaður reifar. Ég vil þó halda því til haga að ég held að það skaði ekki þessa þingsályktunartillögu og þá aðgerðaáætlun sem verið hefur í vinnslu í mjög langan tíma að hún komi hér fram. Ég held að það sé gríðarlega jákvætt. Ef Alþingi vinnur þetta mál áfram í velferðarnefnd, sem ég á nú von á eftir þessa umræðu, vænti ég þess að menn sjái hversu mikilvægt það er að fá líka aðkomu Alþingis. Með því er verið að tryggja, í málaflokki sem er gríðarlega mikilvægur, aðkomu fjögurra ráðuneyta og svo löggjafarþingsins um hvaða skref skuli stigin í þessum málum. Ef við ætlum að ná árangri þá er gríðarlega mikilvægt að menn vinni saman þvert á ráðuneyti og þetta mál hefur verið talsvert lengi í undirbúningi. Þess vegna er mikilvægt að fá líka aðkomu þingsins að því vegna þess að það hefur tekið lengri tíma að ná þessu saman eins og ég kom inn á í framsöguræðu minni.

Við sjáum líka merki um úrræði sem hafa orðið til með samstarfi á milli einstakra ráðuneyta, eins og t.d. verkefnið Bjarkarhlíð, sem gert er ráð fyrir í þessari þingsályktunartillögu, þ.e. að sambærilegu úrræði sé komið upp á Akureyri þar sem allir aðilar koma að. Þar sem dómsmálin koma að, félagsmálin, heilbrigðismálin og við erum með fleiri úrræði sem eru þess eðlis að við erum að tengja saman ólíka málaflokka. Þegar við erum að feta þá braut innan framkvæmdarvaldsins, að vinna meira saman þvert á ráðuneyti, sem hefur verið í undirbúningi lengi í þessari áætlun, held ég að það sé einfaldlega mjög jákvætt að koma með það hingað inn til þingsins, fá umfjöllun um það. Þá erum við líka komin með sýn ólíkra flokka á það. Það er nú þannig að framkvæmdarvaldið situr á endanum í umboði löggjafarvaldsins og ef Alþingi kemst að þeirri niðurstöðu að þessi þingsályktunartillaga sé skynsamleg í því formi sem hún er þá að sjálfsögðu vinnum við áfram eftir því. Ég held því að það sé bara jákvætt mál og ég vonast til að það fái góða afgreiðslu og vinnslu í þinginu.