149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:21]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M) (andsvar):

Þingforseti. Ég vil þakka hv. þingmanni sem steig hér í púlt á undan mér fyrir að minnast á lýðheilsustefnuna og taka fram og taka undir að slík fræðsla geti verið gott verkfæri inn í þessa þingsályktunartillögu. Ég er að sjálfsögðu hjartanlega sammála því. Ég vil leggja áherslu á, af því að ég veit að það er mjög mikilvægt, að foreldrar fái aukna aðstoð til að valda sínu veigamikla hlutverki, því að það er svo margt sem hefur áhrif á börnin okkar. Það eru vinirnir, þeir geta verið margs konar, það er auðvitað samfélagsmiðlar og af því hv. þingmaður nefndi hatursorðræðu þá hefur maður miklar áhyggjur af því hvað er orðið mikið hatur á samfélagsmiðlum. Eins og fram kom bæði hjá hv. þingmanni og fólki með einhverju viti, vildi maður kannski orða það, þá fylgja orðum ábyrgð. Það er sannarlega satt og manni líður illa yfir því hvernig fólk leyfir sér oft að nota alls konar orð um annað fólk.

Varðandi einelti þá líður þeim sem leggur aðra í einelti líka illa, enda reyna meðferðaraðilar bæði að hafa áhrif á og hjálpa þeim sem verða fyrir eineltinu og þeim sem leggja í einelti. Það er bara þannig. Við þurfum að huga að báðum hópum og þetta er mikið áhyggjuefni. Þess vegna vonar maður að margar aðgerðanna sem koma fram í þingsályktunartillögunni hafi góð áhrif og komist til framkvæmda. Það skiptir mjög miklu máli að góð mál komist til framkvæmda.