149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það lýsir ekki sérlegum búhyggindum þingsins að horfa helst bara til næstu daga eða jafnvel sífellt vera að bregðast við héraðsbresti sem er oft mjög fyrirsjáanlegur. Við erum að fara að takast á við brjálæðislegar breytingar á næstu áratugum. Störf munu breytast og önnur verða til og lykillinn að því að fóta sig í þessum nýju aðstæðum er að við eflum sköpunargáfu, kraft, tækniþekkingu, nýsköpun og rannsóknir. Annars mun okkur ekki farnast sérstaklega vel. Við þurfum að þroska einstaklinga sem geta tekist á við ný verkefni með nýrri tækni og horfa á menntakerfið í því ljósi. Það var auðvitað jákvætt skref að skipa framtíðarnefnd sem á að fjalla um helstu ógnir og tækifæri og ég fagna því. En um leið skil ég ekki niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar sem leggja til lækkun á fjárframlögum til rannsóknasjóða Vísinda- og tækniráðs um tæplega 150 milljónir milli umræðna.

Herra forseti. Hvað hefur breyst? Varla hefur framþróun og framtíðin breyst á þessum eina mánuði. Þessi niðurskurður þýðir 17% minna framlag og 25 störf ungra vísindamanna munu hverfa úr þessu umhverfi. Við verðum að setja nýsköpun, vísindi og rannsóknir á oddinn og ekki draga lappirnar. Samfylkingin mun því leggja fram breytingartillögu við afgreiðslu fjárlaga sem dregur þessa lækkun til baka og ég hvet þingmenn til að spá aðeins í framtíðina með okkur og styðja þá tillögu.